Innlent

Seyðfirðingar líta á söluna sem tækifæri

Svavar Hávarðsson skrifar
Gullver NS-12. Óvissutímar eru fram undan hjá áhöfn skipsins við breytingar á eignarhaldi.
Gullver NS-12. Óvissutímar eru fram undan hjá áhöfn skipsins við breytingar á eignarhaldi. mynd/adolf
„Ég held að þessum breytingum geti fylgt tækifæri til að efla samfélagið hérna. Að því leytinu er þetta jákvætt og ekki ástæða til að óttast þessar breytingar miðað við það sem við okkur er sagt,“ segir Arnbjörg Sveinsdóttir, forseti bæjarstjórnar á Seyðisfirði, um mat bæjarstjórnarinnar eftir tíðindi gærdagsins.

Arnbjörg Sveinsdóttir
Síldarvinnslan í Neskaupstað hefur keypt öll hlutabréf í Gullbergi ehf. á Seyðisfirði sem gerir út togarann Gullver NS 12. Samhliða kaupum á togaranum keypti fyrirtækið húsnæði og búnað Brimbergs til fiskvinnslu á staðnum. Áfram er stefnt að því að gera út frá Seyðisfirði og tryggja störf tengd sjávarútvegi í byggðarlaginu. Síldarvinnslan hefur þegar töluverð umsvif á Seyðisfirði og rekur þar þegar fiskimjölsverksmiðju.

„Við gerum okkur grein fyrir þeirri samfélagslegu ábyrgð sem spilar inn í þessi kaup. Við erum ekki að koma hingað inn til að fara, enda felur fjárfestingin sjálf í sér fyrirheit um áframhaldandi starfsemi,“ segir Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunar, spurður um kaupin og þýðingu þeirra fyrir útgerð og vinnslu. Gunnþór segir að þegar eigendur Gullbergs leituðu eftir viðræðum hafi ekki verið sjálfgefið að kaupa fyrirtækið, en ljóst að þá hefðu aðrir keypt. „Verkefnið er að spila úr þessu núna. Umsvif Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði munu aukast, verði viðskiptin samþykkt af Samkeppnisftirlitinu, en óábyrgt að lýsa því yfir að starfsemin verði í sama farvegi og hingað til. Markmiðið er að skapa góða umgjörð um traust störf og útgerð á svæðinu,“ segir Gunnþór.

Gunnþór Ingvason
Arnbjörg bætir við að það sé vissulega jákvætt, og viss trygging í því falin, að rótgróið fyrirtæki á Austurlandi kaupi fyrirtækið, sem hefur verið máttarstólpi í bæjarfélaginu í yfir hálfa öld.

„Við gerum okkur grein fyrir þeirri samfélagslegu ábyrgð sem spilar inn í þessi kaup. Við erum ekki að koma hingað inn til að fara, það er ekki markmiðið,“ segir Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar, spurður um kaupin og þýðingu þeirra fyrir útgerð og vinnslu. Gunnþór segir að þegar eigendur Gullbergs leituðu eftir viðræðum hafi ekki verið sjálfgefið að kaupa fyrirtækið, en ljóst að aðrir hefðu keypt ef þessi ákvörðun hefði ekki verið tekin. „Verkefnið er að spila úr þessu núna, og óábyrgt á þessum tímapunkti að lýsa því yfir að starfsemin verði í sama farvegi og hingað til. Við verðum að fá að vinna úr þessu, en það er skiljanlegt að það sæki ótti að fólki,“ segir Gunnþór.

Hjá fyrirtækjunum á Seyðisfirði starfa um sjötíu manns í dag.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×