Innlent

Sextíu og fjórir bílar teknir í eftirlit

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Einn ökumaður var með útrunnið ökuskírteini en Ríkisskattstjóri hafði afskipti af þó nokkrum aðilum.
Einn ökumaður var með útrunnið ökuskírteini en Ríkisskattstjóri hafði afskipti af þó nokkrum aðilum. vísir/gva
Afskipti voru höfð af 64 leigubílum og hópferðabílum í eftirliti í Sundahöfn í Reykjavík í síðustu viku. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu framkvæmdi eftirlitið samvinnu við Ríkisskattstjóra.

„Þarna koma skemmtiferðaskip og er töluvert af bílum sem taka á móti gestunum. Afskipti voru höfð af bílstjórum bílanna þar sem þeir voru kyrrstæðir á bílastæðunum hjá Sundahöfn,“ segir Guðbrandur Sigurðsson, aðalvarðstjóri umferðardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Guðbrandur segir að lögregla hafi kannað ökuréttindi ökumanna og skráningu ökutækja og hópbifreiða. Einn ökumaður hafi verið með útrunnið ökuskírteini en að öðru leyti hafi meira og minna allt verið í lagi sem snýr að lögregluafskiptum.

Steinþór Haraldsson, starfandi ríkisskattstjóri, segir að eftirlit Ríkisskattstjóra hafi beint athugasemdum til þó nokkurra aðila.

„Við könnum hvort viðkomandi sé á skrá hjá okkur yfir atvinnurekendur og standi í skilum á staðgreiðslu- og virðisaukaskatti. Eins könnum við hvort starfsmenn séu á launaskrá. Það voru þó nokkrir sem þurftu að laga sín mál,“ segir Steinþór og bætir við að menn fái tíma til að bæta úr sínum málum.

Um ræði viðvarandi eftirlit á vegum Ríkisskattstjóra. „Þetta eru fyrst og fremst fyrirbyggjandi aðgerðir,“ segir Steinþór.

Þessi frétt birtist upphaflega í Fréttablaðinu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×