Innlent

Sextán nýir heimilislæknar útskrifast í haust: "Þetta er algjört met“

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Þórarinn Ingólfsson formaður félags íslenskra heimilislækna.
Þórarinn Ingólfsson formaður félags íslenskra heimilislækna.
Sextán nýir heimilislæknar útskrifast í haust en það stórt stökk frá því sem verið hefur undanfarin ár. Formaður félags íslenskra heimilislækna segir þessa þróun einstaklega ánægjulega, en að hún verði að halda áfram til að bæta úr þeim skorti sem verið hefur á læknum í faginu síðasta áratuginn. 

„Það er algjört met. Við höfum verið að útskrifa sex til sjö hvert ár. Þannig að þetta er tvöföldun og mikið gleðiefni,“ Þórarinn Ingólfsson formaður félags íslenskra heimilislækna.

Íslenska sérnáminu var hleypt af stokkunum árið 2000 og hafði fagfélag heimilislækna frumkvæði að því. Þá voru heimilislækningar nýlega gerðar að skyldu á kandidatsári. Þó að þróunin sé ánægjuleg þarf þó að útskrifa að minnsta kosti jafn marga næstu tíu ár til að manna allar stöður svo vel sé.

„Þetta er meiri áhugi á faginu og þetta er fyrst og fremst af frumkvæði heimilislæknanna sjálfra, fagfélags þeirra og eldhuga í sjálfboðavinnu sem hafa skipulagt þetta nám og kynnt það fyrir stjórnvöldum. Stjórnvöld hafa tekið vel í þetta frá byrjun en farið sér alltof hægt. Ekki fjármagnað þetta nógu vel, en núna á síðari árum hafa þau komið sterkt inn með nýjar sérnámsstöður. Það virðist vera einhver skriður kominn á þetta,“ segir Þórarinn.

Hann segir það fagnaðarefni að heilbrigðisráðherra hafi boðað þrjár ný jar heilsugæslur á Reykjavíkursvæðinu á nýju rekstrarformi. Mikilvægt sé að laða lækna að faginu en til þess þurfi Ísland að standast samanburð við önnur lönd.

„Heilbrigðisyfirvöld þau skilja það að við náum aldrei að reka þetta kerfi í framtíðinni með fjölgun aldraðra, fjölgun fólks með flókna og langvinna sjúkdóma nema vera með sterka heilsugæslu. Annars þarftu að byggja fleiri sjúkrahús og það er ekki í myndinni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×