Innlent

Sextán mánaða fangelsi fyrir ýmis þjófnaðarbrot

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Brotaferill mannsins nær aftur til ársins 2009.
Brotaferill mannsins nær aftur til ársins 2009. vísir/valli
Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag Þorkel Diego Jónsson í sextán mánaða fangelsi fyrir þjófnaði, nytjastuld og fíkniefnabrot. Refsingin er ekki bundin skilorði.

Brot mannsins áttu sér stað á vormánuðum þessa árs. Í mars braust hann meðal annars inn í sumarbústað við Hafravatnsveg og hafði þaðan á brott meðal annars sjónvarp, kassagítara og magnara. 

Síðar í mánuðinum fór hann inn í vöruhús Ormson og stal þaðan fartölvu. Sama dag fór hann inn í nýbyggingu við Lindargötu og stal verkfærum og helluborðum. Verðmæti fengsins nam 1,8 milljón króna. Í apríl braust hann svo inn í húsnæði 365 og stal þaðan tveimur iMac tölvum. 

Maðurinn, sem er á þrítugsaldri, játaði öll sín brot. Þá játaði hann einnig að hafa tekið þrjár bifreiðar í heimildarleysi á fyrrgreindu tímabili. 

Frá árinu 2009 hefur Þorkell níu sinnum verið dæmdur fyrir brot gegn almennum hegningarlögum, umferðarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni. Ekki þótti ástæða til að skilorðbinda refsingu hans. Að auki var Þorkell sviptur ökurétti ævilangt.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×