Erlent

Sextán liðsmönnum bandaríska hersins refsað vegna loftárásar á sjúkrahús í Afganistan

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Spítalinn stórskemmdist í árásinni.
Spítalinn stórskemmdist í árásinni. Vísir/Getty
Sextán liðsmönnum bandaríska hersins hefur verið refsað vegna loftárásar bandaríska hersins á spítala í Afganistan í október á síðasta ári. 42 létust en árásin var gerð fyrir mistök.

Samkvæmt heimildum fréttastofu AP munu liðsmennirnir ekki verða sóttir til saka heldur hefur þeim verið veitt opinber áminning. Í frétt BBC kemur fram að slíkar áminningar geti haft alvarleg áhrif á feril þeirra liðsmanna sem um ræðir innan hersins.

Árásin var gerð í október á síðasta ári. Í fyrstu sögðu bandarísk hernaðaryfirvöld að Talibanar hefðu skotið á hermenn frá sjúkrahúsinu en var það fljótlega dregið til baka.

Samtökin Læknar án Landamæra segja að yfirvöld í Afganistan og Bandaríkjunum hafi vitað nákvæma staðsetningu sjúkrahússins og að starfsmenn samtakanna hafi margsinnis reynt að ná sambandi við bandaríska herinn á meðan loftárásinni stóð.

Bandaríkin hafa viðurkennt að árásin var gerð fyrir mistök og var opinberri rannsóknarnefnd komið á laggirnar til þess að rannsaka árásina. Hefur Barack Obama beðist afsökunar á árásinni sem var ein sú banvænasta í 15 ára sögu átakanna í Afganistan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×