Enski boltinn

Sextán ára strákur gæti spilað fyrir „Gömlu konuna“ um helgina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Moise Kean.
Moise Kean. Vísir/Getty
Framherjinn Moise Kean gæti spilað sinn fyrsta leik fyrir stórlið Juventus á morgun þegar liðið mætir Emil Hallfreðssyni og félögum í Udinese í ítölsku deildinni á morgun.

Það ætti svo sem ekki að vera nein stórfrétt þótt að leikmaður fái sitt tækifæri með Juventus nema það að Moise Kean er fæddur 28. febrúar 2000. Hann er því aðeins sextán ára gamall.

Moise Kean hefur verið kallaður hinn nýi Mario Balotello á Ítalíu en þessi strákur hefur raðað inn mörkum fyrir unglingalið Juventus. Hann hefur skorað og skorað þrátt fyrir að leika oftast á móti eldri strákum.

Moise Kean er ættaður frá Fílabeinsströndinni og hefur alltaf talað um að hann sé stoltur af upprunanum. Hann er samt fæddur á Ítalíu og hefur spilað fyrir ítölsku unglingalandsliðin.

Nú hafa dyrnar opnast fyrir strákinn inn í aðallið Juventus og ítalskir fjölmiðlar skrifa um möguleikann á því að Moise Kean spili sinn fyrsta leik um helgina.

Króatíski landsliðsmaðurinn Marko Pjaca meiddist í undankeppni HM og verður ekkert með Juventus-liðinu á næstunni.

„Annaðhvort Paulo Dybala eða Gonzalo Higuain munu hvíla í leiknum og vegna þess að Marko Pjaca er ekki heldur með þá ætlum við að kalla á Moise Kean inn í hópinn,“ sagði Massimiliano Allegri, þjálfari Juventus.

„Strákurinn hefur mikla hæfileika en hann er aðeins sextán ára gamall og þarf á meiri leikreynslu að halda,“ sagði Allegri.

Framtíð Moise Kean ræðst svo sem ekkert í leiknum á morgun en hann gæti aftur á móti stimplað sig inn á fótboltakortið með góðri frammistöðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×