Innlent

Sex þingmenn Framsóknarflokks andsnúnir kosningum í haust

Gunnar Atli Gunnarsson skrifar
Stór hluti þingmanna Framsóknarflokksins gerir fyrirvara eða eru andsnúinn því að boðað verði til alþingiskosninga í haust. Formaður Sjálfstæðisflokksins segir algjörlega ótímabært að spá um hvort kosningar muni frestast fram á vor.

Forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar komust að samkomulagi í upphafi síðasta mánaðar um að stytta kjörtímabilið um eitt löggjafarþing og halda kosningar í haust. Nákvæm dagsetning kosninga kæmi til með að velta á framvindu þingmála.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, sagði í þættinum Eyjunni á Stöð 2 síðastliðinn sunnudag að hann sæi ekki mikla kosti við það að flýta kosningum. Þá hafa einstaka þingmenn flokksins lýst því yfir að réttara væri að klára kjörtímabilið og kjósa næsta vor.

Fréttastofa leitaði til allra þingmanna Framsóknarflokksins sem ekki hafa opinberlega lýst sinni skoðun á málinu og spurði: Styður þú að boðað verði til alþingiskosninga í haust?

Af 19 þingmönnum flokksins sagðist aðeins einn styðja það að boðað yrði til kosninga í haust. Níu þingmenn sögðust styðja að boðað yrði til kosninga í haust, með fyrirvara um að tiltekin mál yrðu kláruð á Alþingi. Sex þingmenn sögðu nei við spurningu fréttastofu en þrír gáfu ekki upp afstöðu eða svöruðu ekki fyrirspurn fréttastofu.

Formaður Sjálfstæðisflokksins segir framhald ríkisstjórnarsamstarfsins grundvallað á því að tiltekin mál verði kláruð og í kjölfarið boðað til kosninga.

„Þingstörfin hafa gengið ágætlega að undanförnu. Ég hef ekki sérstakar áhyggjur af framhaldi þingstarfa og þess vegna eru engar forsendur fyrir því að fara að tala um breyttar dagsetningar fyrir kosningarnar. Í samtölum mínum við forsætisráðherra hefur þetta verið alveg skýrt,” segir Bjarni Benediktsson.

Ef að þið náið ekki öllum þessu stóru málum í gegn, munu þá kosningarnar frestast?

„Það er algjörlega ótímabært að fara að spá einhverju slíku,” segir Bjarni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×