Innlent

Sex mánuðir á skilorði eftir barsmíðar á B5

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Atvikið átti sér stað á skemmtistaðnum B5.
Atvikið átti sér stað á skemmtistaðnum B5. vísir/pjetur
Karlmaður búsettur í Hafnarfirði hefur verið dæmdur í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að brjóta glas í andliti annars manns og ganga í skrokk á honum. Dómur í málinu féll í Héraðsdómi Reykjaness á mánudaginn en atvikið átti sér stað fyrir rúmlega tveimur árum. Í niðurstöðum dómsins kemur fram að árásarmaðurinn eigi sakaferil að baki og hafi hann haft áhrif á þyngd refsingar. Sökum þess að málið tafðist í kerfinu ákvað dómari að skilorðsbinda refsinguna.

Í maí 2012 var lögreglu tilkynnt að sjúkrabíll hefði verið kallaður út og á leið á skemmtistaðinn B5 í Bankastræti í Reykjavík. Þar væri maður með skurð á andliti. Árásarmaðurinn sagðist fyrir dómi hafa verið staddur á B5 ásamt tveimur mönnum og einni konu sem hann hafi hitt fyrr um kvöldið. Þegar þangað var komið byrjaði maður að áreita konuna í hópnum. Konan segir fyrir dómi að áreitið hafi verið talsvert. Maðurinn sem áreitti hana hafi strokið henni, togað í hana og klipið hana í rassinn. Áreitið var þess háttar að fólkinu í kring stóð ekki á sama. Hún segir frá því að hópurinn sem hún hafi tilheyrt hafi verið hálfhræddur og ákveðið að yfirgefa staðinn, eftir að maðurinn sem áreitti hana hafi rifið skyrtu annars manns.

Í dómsorði kemur fram að maðurinn sem var dæmdur hafi viðurkennt að hafa slegið manninn sem áreitti konuna, enda sjáist það á myndbandi úr öryggismyndavél staðarins. Dómara þykir einnig fullsannað að sá dæmdi hafi brotið glas í andliti mannsins sem varð fyrir árásinni. Í læknisvottorði kom fram að sár mannsins væru greinilega eftir glerbrot. Hann fór á slysavarðstofu Landspítalans í kjölfar árásarinnar og þurfti svo að fara aftur daginn eftir til þess að láta fjarlæga glerflís sem var enn í einu sárinu.

Maðurinn sem hlaut dóminn var einnig talinn bera ábyrgð á skurðum í andliti konunnar sem hann var með; að glerbrot hafi kastast af andliti mannsins í augu konunnar. Hún segir frá því að þegar hópurinn hafi ætlað að yfirgefa B5, eftir að hún hafi verið áreitt, hafi hún gengið í átt að barnum. Þegar hún hafi litið við hafi hún fengið glas í höndina og hafi glerbrotin meðal annars farið í augu hennar. Kemur fram í dómi að konan hafi talið manninn sem áreitti hana – og fékk glas í andlitið – hafi kastað glasinu. Hún segir frá því fyrir dómi að hún hafi séð manninn sem áreitti hana þegar hún fékk glerbrotin í sig - hann hafi starað á konuna. Hún lagði fram bótakröfu í málinu en dró hana til baka. Taldi hún ákærða ekki hafa slasað sig viljandi óháð því hvort hann kastaði glasinu eða ekki. Raunar sagðist konan ekki hafa séð ákærða inn á B5 þetta kvöld og ekkert þekkja til hans. Var ekki talin ástæða til þess að sakfella ákærða fyrir að eiga sök á sárum í andliti konunnar.

Maðurinn fékk sex mánaða skilorðsbundinn dóm sem fellur niður að þremur árum liðnum. Hann var einnig dæmdur til að greiða sakarkostnað upp á 34 þúsund og fjögur hundruð krónur, auk þess sem honum var gert að greiða helming málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns, sem eru tæplega 565 þúsund krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×