Fótbolti

Sex leikmenn sem voru efnilegastir í Pepsi-deildinni eru í íslenska hópnum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
myndir/KSÍ/hILMAR ÞÓR
Í íslenska hópnum á Evrópumótinu í fótbolta eru sex leikmenn sem voru á sínum tíma á Íslandi kjörnir efnilegustu leikmenn efstu deildar karla.

Emil Hallfreðsson er sá elsti í hópnum sem var á sínum tíma kjörinn efnilegasti leikmaðurinn en sá er kosinn af kollegum sínum í efstu deild. Emil var efnilegasti leikmaður efstu deildar eftir að hann varð Íslandsmeistari með FH árið 2004.

Tveimur árum síðar var bakvörðurinn eldfljóti Birkir Már Sævarsson úr Val kjörinn efnilegastur og tveimur árum eftir það, 2008, var Jóhann Berg Guðmundsson kjörinn efnilegastur aðeins sautján ára gamall eftir frábært tímabil með Breiðabliki.

Blikar fengu nafnbótina efnilegasti leikmaður efstu deildar þrjú ár í röð en árið 2009, ári á eftir Jóhanni, var Alfreð Finnbogason kjörinn sá efnilegasti. Alfreð varð svo Íslandsmeistari ári síðar og þá kjörinn bestur í deildinni.

Þriggja ára bið var þar til fimmti maðurinn í EM-hópnum var kjörinn efnilegastur. Það var Selfyssingurinn Jón Daði Böðvarsson sem hlaut nafnbótina þrátt fyrir að vera í fallliði Selfoss árið 2012.

Keflvíkingurinn Arnór Ingvi Traustason var svo kjörinn efnilegasti leikmaður Íslandsmótsins árið 2013 en hann laumaði sér bakdyramegin inn í EM-hópinn þökk sé frábærri frammistöðu hans í vináttuleikjunum frá lokum síðustu undankeppni og þar til kom að því að velja hópinn.

Alfreð Finnbogason er einn af þremur í EM-hóp Íslands sem voru kjörnir besti leikmaður Íslandsmótsins en hinir tveir voru markverðirnir Hannes Þór Halldórsson, KR, og Ingvar Jónsson, Stjörnunni.

Ekki missa af neinu sem gerist á EM í Frakklandi. Vísir er með hóp fjölmiðlamanna á mótinu sem færa ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×