Golf

Sex kylfingar deila forystunni á Northern Trust Open

Vijay Singh einbeittur að vanda á fyrsta hring í dag.
Vijay Singh einbeittur að vanda á fyrsta hring í dag. Getty
Sex kylfingar eru jafnir í efsta sæti á Northern Trust Open sem fram fer á Riviera vellinum í Kaliforníuríki en þar ber helst að nefna gömlu brýnin Vijay Singh og Retief Goosen sem rúlluðu aftur árunum á fyrsta hring og léku á 66 höggum eða fimm undir pari.

Það gerðu einnig Bandaríkjamennirnir Daniel Summerhays, James Hahn, Derek Fathauer og Nick Watney en Carlos Ortiz frá Mexíkó er einn í sjöunda sæti á fjórum undir pari.

Jordan Spieth fór einnig vel af stað og lék fyrsta hring á tveimur undir pari, einu höggi betur en hinn högglangi Dustin Johnson og sigurvegari síðasta árs, Bubba Watson, en þeir léku báðir á einu höggi undir pari.

Þá voru nokkur stór nöfn í tómum vandræðum á fyrsta hring, þar á meðal Hunter Mahan sem lék á fjórum yfir pari, Luke Donald á sex yfir pari og Ernie Els á sjö yfir en hann er meðal neðstu manna.

Northern Trust Open verður í beinni útsendingu á Golfstöðinni alla helgina en útsendingartíma má sjá hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×