Fótbolti

Sevilla í úrslitaleik Evrópudeildarinnar þriðja árið í röð | Sjáðu mörkin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kévin Gameiro fagnar með félögum sínum í kvöld.
Kévin Gameiro fagnar með félögum sínum í kvöld. Vísir/Getty
Sevilla varð í kvöld þriðja spænska félagið til að komast í úrslitaleik í Evrópukeppni á þessu tímabili þegar liðið sló úkraínska félagið Shakhtar Donetsk út úr undanúrslitum keppninnar.

Sevilla vann seinni leikinn 3-1 en liðin gerðu 2-2 jafntefli í fyrri leiknum sem var á heimavelli Shakhtar Donetsk.

Sevilla hefur unnið Evrópudeildina tvö undanfarin ár og fær nú tækifæri til að vinna þessa keppni þriðja árið í röð.

Sevilla mætti portúgalska liðinu Benfica í úrslitaleiknum 2014 og úkraínska félaginu Dnipro Dnipropetrovsk í úrslitaleiknum í fyrra en að þessu sinni mun spænska liðið spila við enska liðið Liverpool.

Kévin Gameiro skoraði tvö fyrstu mörk Sevilla í leiknum og kom liðinu tvisvar yfir en hann hefur skorað níu Evrópumörk á tímabilinu.

Kévin Gameiro kom Sevilla í 1-0 strax á 9. mínútu eftir að hann slapp einn í gegn en Eduardo jafnaði fyrir Shakhtar Donetsk rétt fyrir hálfleik.

Það var ekki jafn lengi því Gameiro kom Sevilla aftur yfir í upphafi síðari hálfleiks eftir laglega sókn og flotta sendingu frá Grzegorz Krychowiak.

Grzegorz Krychowiak lagði líka upp þriðja markið en það skoraði Mariano á 59. mínútu. Eftir það var Sevilla með góð tök á leiknum og fagnaði flottum sigri og enn einu sæti í úrslitaleik Evrópudeildarinnar.

Gameiro skorar fyrir Sevilla Eduardo jafnar fyrir Shakhtar Donetsk Kévin Gameiro kemur Sevilla aftur yfir Mariano kemur Sevilla í 3-1 á móti Shakhtar



Fleiri fréttir

Sjá meira


×