Innlent

Setur út á aukinn kostnað vegna málefna hælisleitenda

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Ásmundur Friðriksson
Ásmundur Friðriksson Vísir/Vilhelm
Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði á Alþingi í dag að með nýjum lögum um útlendinga væru Íslendingar ekki að hlusta á reynslu nágrannaþjóða. Hann sagði að með því fjármagni sem gert er ráð fyrir í útlendingastofnun á þessu ári væri hægt að reka skurðstofur á sjúkrahúsinu í Vestmannaeyjum.

„Hælisleitendur eru annar flokkur flóttamanna sem stöðugt sækir til landsins og er samsettur mest af ungum karlmönnum sem koma hingað vegabréfslausir. Með nýsamþykktum lögum um útlendinga eru skilaboð Alþingis skýr til þessa hóps og þau eru að skila sér. Árið 2014 var fjöldi hælisleitenda 175 en áætlaður fjöldi hælisleitenda er 700 á yfirstandandi ári. Það er 98% aukning frá fyrra ári,“ sagði Ásmundur meðal annars í ræðu sinni.

Ásmundur benti á að Dvalargjöld hælisleitenda væru hærri en lágmarksellílífeyrir og greip þá Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, fram í fyrir Ásmundi og sagði honum að skammast sín. 

„Dvalargjöld hælisleitenda sem ekki fá úrlausn mála sinna eru 7.800 kr. á dag, þ.e. 234.000 kr. á mánuði, 2,8 milljónir á ári, en lágmarksellilífeyrir er þessa dagana 212.766 kr. Samkvæmt fjáraukalögum eru settar 640 milljónir til Útlendingastofnunar vegna hælisleitenda en fyrir voru 556 milljónir. Samtals á þessu ári 1.200 milljónir.“

Þá sagði Ásmundur að þeir fjármunir sem lagðir væru til Útlendingastofnunar vegna hælisleitenda myndu duga til að reka skurðstofur Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á sjúkrahúsinu í Vestmannaeyjum.

„Kostnaður vegna hælisleitenda eykst frá árinu 2011 úr 60 milljónum í 1.200 milljónir árið 2016. Á síðustu þremur árum hefur lögfræðikostnaður innanríkisráðuneytisins vegna hælisleitenda verið 174 milljónir kr. og á fjáraukalögum verður bætt við 55 milljónum í þennan lið.“

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna spurði í kjölfarið í ræðu sinni hvaða tilgangi slíkur málflutningur ætti að þjóna. 

„Að útmála það hversu hratt útgjöld séu að aukast vegna þess að við að okkar litla leyti erum að takast á við þann risavaxna vanda sem við er að glíma varðandi flóttamenn og landlaust fólk um veröld víða. Það hefði verið nær ef háttvirtur þingmaður hefði talað um þetta úr hinni áttinni. Er þetta nýi talsmaður Sjálfstæðisflokksins í þessum málaflokki eftir sigur í prófkjöri í Suðurkjördæmi? Hafandi fellt Unni Brá Konráðsdóttur sem talaði með talsvert öðrum hætti um þessi mál,“ sagði Steingrímur.

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata sagði að henni væri misboðið og vildi spyrja aðra þingmenn Sjálfstæðisflokksins hvort þetta væri almennt hugarfar meðal flokksmanna. Guðlaugur Þór Þórsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins bað í kjölfarið að um slík málefni væri rætt af yfirvegun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×