Sport

Setti króatískt met tvö kvöld í röð og tók ÓL-gullið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sara Kolak fagnar sigri.
Sara Kolak fagnar sigri. Vísir/AFP
Sara Kolak frá Króatíu varð í nótt Ólympíumeistari í spjótkasti kvenna á Ólympíuleikunum í Ríó. Sara Kolak, sem er aðeins 21 árs, kastaði 66,18 metra í sínu fjórða kasti og það skilaði sigrinum.

Sara Kolak bætti þarna króatíska metið sem hún hafði sett í undankeppninni á þriðjudaginn en hún kastaði þá 64,30 metra.

Sunette Viljoen frá Suður-Afríku fékk silfrið en hún var í forystu framan af keppni. Viljoen kastaði 64,92 metra í fyrsta kasti og náði ekki að bæta það.

Barbora Spotáková frá Tékklandi hafði unnið Ólympíugullið undanfarna tvo Ólympíuleika en varð núna að láta sér bronsið nægja.

Spotáková kastaði 64,80 í fimmta kasti sínu og komst þar með upp fyrir Maria Andrejczyk frá Póllandi sem endaði fjórða.

Króatar hafa því eignast tvo Ólympíumeistara í kastgreinum á þessum leikum því Sandra Perković vann kringlukast kvenna.

Sara Kolak vann brons á EM í Amsterdam fyrr í sumar en þarna er ný stjarna fædd í spjótkasti kvenna.

Ásdís Hjálmsdóttir tók þátt í undankeppnini en endaði í 30. og næstsíðasta sæti. Íslandsmet hennar hefði bara dugað í níunda sæti í úrslitunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×