Lífið

Setti gamlan Volvo í felulitina

Gunnar Skjöldur stillir sér upp hjá Volvonum trausta og heldur á njólanum sem hann notaði til að ná fram mynstrinu.
Gunnar Skjöldur stillir sér upp hjá Volvonum trausta og heldur á njólanum sem hann notaði til að ná fram mynstrinu. Vísir/Vilhelm
Gunnar Skjöldur á ansi merkilega bifreið en það er Volvo af gerðinni 744 B200E og er 1987 árgerð. Gunnar festi kaup á þessum eðalvagni í maí á síðasta ári. Svona Volvokerra er auðvitað gríðarlega rennileg beint úr verksmiðjunni en Gunnar hefur ekki setið auðum höndum síðan hann tók við lyklunum að drossíunni og endurbætt töluvert útlitið.

„Ég „pimpaði“ upp felgurnar. Ég er líka búinn að klæða þakið að innan með gallabuxum og svo auðvitað „camo“-sprautunin,“ segir Gunnar en Volvoinn er vart sjáanlegur lengur eftir að hann var settur í felulitina af eigandanum.

Hér má sjá mynstrið betur, mjög náttúrulegt og flott. Vísir/Vilhelm
„Ég tók þá ákvörðun að „camo-a“ hann vegna þess að ég hef svo gaman af því að fela mig og það var gott veður og ég hafði ekkert að gera þannig að ég hoppaði út í móa og sótti mér visnaðan njóla. Svo fóru næstu tveir dagar í að gera mynstrið með þremur litum í spreybrúsum og njólanum,“ segir Gunnar, en hann notaði njólann til að ná fram sérstöku felulitamynstri á bílinn sinn, sem ætti að nýtast vel í hvers kyns hernað hér á landi og auðvelt að fela sig inn á milli njólanna, sem gjarnan vilja spretta upp í íslenskri náttúru. Þess má geta að þessi fágæti Volvo er til sölu fyrir „rétta upphæð“ eins og Gunnar orðar það þegar ég spyr hann hvað hann vilji fá fyrir kerruna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×