Lífið

Setja á laggirnar námsbraut fyrir listamenn með þroskahömlun

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Margrét Norðdahl er ein þeirra sem hefur séð um að koma námsbrautinni af stað. Hægra megin má sjá Atla Má Indriðason að störfum í Myndlistaskólanum.
Margrét Norðdahl er ein þeirra sem hefur séð um að koma námsbrautinni af stað. Hægra megin má sjá Atla Má Indriðason að störfum í Myndlistaskólanum. Mynd/Margrét
Myndlistaskólinn í Reykjavík hyggst bjóða upp á myndlistarnám fyrir fólk með þroskahömlun nú í haust. Opnað verður fyrir umsóknir á næstu vikum. „Við finnum fyrir miklum áhuga sem er mjög hvetjandi,“ segir Margrét Norðdahl, myndlistamaður og kennari við skólann, en hún hefur farið fyrir verkefninu ásamt Gerði Leifsdóttur og Kristni G. Harðarsýni.

Skólinn hefur boðið upp á vinnustofur og námskeið í myndlist fyrir fólk með þroskahömlun en nú er skrefið stigið til fulls og í fyrsta sinn boðið upp á myndlistarnám sem gildir til prófgráðu fyrir þennan hóp.

„Þetta er mjög þarft,“ segir Margrét. „Það hafa verið gerðar rannsóknir sem sýna að ungt fólk með þroskahömlun hefur áhuga á frekara námi eftir framhaldsskólann.“ Eins og staðan er núna aðeins í boði starfstengt diplómanám fyrir þroskahamlaða í Háskóla Íslands. „Ég veit að þar hafa færri komist að en vilja, því er þörfin mikil.“

Egill Steinþórsson við opnun sýningar í Norræna húsinu. Egill er nemandi í vinnunstofu við Myndlistaskólann í Reykjavík og á veggnum er stækkuð sjálfsmynd eftir hann.Mynd/Margrét
Tækifæri til sjálfstæðis í listsköpun

Markmiðin með náminu eru mörg að sögn Margrétar. „Að nemendur eflist, fái aukinn almennan skilning á sjónlistum, listasögunni og nútímalist. Nemendur kynnist allskonar aðferðum og listmiðlum. Með tæknilegri þjálfun og kynningu ólíkra listmiðla hefur fólk tækifæri til að finna sína persónulega leið og getur þá orðið sjálfstætt í listsköpun sinni.“

Hún bendir á að auk þess sé ávinningur af námi svo miklu meiri heldur en tengist námsefninu beint. „Tengsl myndast og sambönd sem fólk á út lífið.“

„Staða listafólks með þroskahömlun er ólík stöðu annarra í samfélaginu þegar kemur að sýningartækifærum og að byggja upp feril í listum,“ segir Margrét

„Þetta er líka mikilvægt innlegg í að þau fái að njóta betur hæfileika sinna. Í sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem hefur verið samþykktur á Íslandi en ekki fullgiltur er náttúrulega tilgreint mikilvægi þess að fólk hafi tækifæri til þess að rækta og njóta hæfileika sinna. Og rétt til þess að stunda nám á öllum skólastigum.“

Áslaug Thorlacius er skólastjóri Myndlistaskólans í Reykjavík.
„Við erum alveg stórkostlega ánægð“ 

Áslaug Thorlacius, skólastjóri Myndlistarskólans í Reykjavík, er stolt af námsbrautinni. „Við höfum verið með nemendur í fjölmörg ár sem koma frá Fjölmennt en það hefur ekki verið hægt að bjóða þeim formlega í tveggja ára nám. Nú fengum við stuðning til þess að byrja,“ segir hún.

„Við erum alveg stórkostlega ánægð með að geta boðið upp á þetta.“ 

Sýningin List án landamæra stendur yfir nú um þessar mundir í Ráðhúsi Reykjavíkur. Sýningin miðar að því að koma list fólks með fötlun á framfæri og koma á samstarfi milli fatlaðs og ófatlaðs listafólks.

Á sýningunni sýna fjölmargir einstaklingar og þar á meðal hópurinn sem er í vinnustofu hjá Myndlistarskólanum í Reykjavík. Sýningin stendur til 31. maí en hún opnaði þann 10. apríl síðastliðinn. 




Sjálfsmynd eftir listamanninn Egil sem sést hér að ofan.Mynd/Margrét
Þörfin brýn

Eins og fyrr var nefnt hafa færri komist að en vilja í starfstengt diplómanám fyrir fólk með þroskahömlun sem kennt er á Menntavísindasviði í Háskóla Íslands. „Fyrir seinasta hóp sóttu fjörtíu og tveir um tólf laus pláss,“ segir Lilja Össurardóttir, aðjúnkt í þroskaþjálfunar fræðum og upplýsingafulltrúi fyrir námið.

Nemendum er hleypt inn á tveggja ára fresti. „Eftirspurnin er mikil og þörfin því brýn fyrir nám sem þetta,“ segir hún. 




„Þetta hefur gengið alveg rosalega vel. Það kemur mjög sterkur hópur úr þessu námi og hátt hlutfall þeirra sem útskrifast fá vinnu.“ 

Nám Myndlistarskólans í Reykjavík verður til tveggja ára en unnið hefur verið að því að útbúa námsbrautina síðan árið 2012 þegar menntamálaráðuneytið lagði fjármuni í verkefnið. Krafa er gerð um að fólk hafi lokið fjögurra ára framhaldsnámi eða sé með sambærilega menntun. Engar aldurstakmarkanir verða og miðað er við að tólf nemendum sé hleypt inn að þessu sinni.







Fleiri fréttir

Sjá meira


×