Viðskipti innlent

Sest við stýrið hjá Strætó í stað Reynis

Stefán Árni Pálsson skrifar
Jóhannes sést hér til vinstri. Reynir lét af störfum í nóvember og sést hann til hægri.
Jóhannes sést hér til vinstri. Reynir lét af störfum í nóvember og sést hann til hægri. vísir/stefán
Jóhannes Rúnarsson, viðskiptafræðingur, hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Strætó. 

Í tilkynningu frá Strætó kemur fram að Jóhannes hafi umfangsmikla reynslu af stjórnunarstörfum og hefur meðal annars unnið hjá Símanum og Skiptum.

Undanfarið hálft ár hefur hann starfað sem sviðsstjóri rekstrarsviðs Strætó. Jóhannes hefur lokið prófi í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands, með áherslu á fjármál, og hefur auk þess sótt fjölmörg námskeið á sviði starfsmannamála, fjármála og innkaupamála. Jóhannes var valinn úr hópi 86 umsækjenda og hélt Capacent utan um ráðingarferlið fyrir stjórn Strætó bs.

„Það eru að eiga sér stað miklar breytingar á áherslum í samgöngumálum og samgönguvenjum og þar gegnir Strætó mikilvægu hlutverki. Það er okkar hlutverk að fylgjast með og reyna að bregðast við þörfum og óskum almennings.  Við munum því setja okkur metnaðarfull markmið um fjölgun farþega í samræmi við stefnu eigenda í nýju svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins."segir Jóhannes Rúnarsson nýr framkvæmdastjóri Strætó.

„Ég mun  leggja áherslu á starfsandann innan fyrirtækisins með auknu samráði og samstarfi starfsfólk. Starfsfólkið er grunnurinn að árangri og velgengni fyrirtækisins,“ segir Jóhannes.

Hann er giftur Lilju Bjarnsþórsdóttur sérkennara og búa þau í Kópavogi. Hann er virkur meðlimur  í Hjálparsveit skáta í Kópavogi og er útivist hans helsta áhugamál.

Reynir Jónsson hætti sem framkvæmdastjóri Strætó í nóvember á síðasta ári.

Sjá einnig: Reynir hættur hjá Strætó

Samkomulag náðist á milli Reynis og stjórnarinnar um starfslokin en hann var mikið í sviðsljósinu eftir að kom í ljós í fjölmiðlum að hann hefði rúmlega tíu milljóna króna Mercedes Benz jeppa til umráða.


Tengdar fréttir

Eyðilagði jeppann í laxveiði

Framkvæmdastjóri Strætó ók jeppa sem hann hafði til umráða út í Norðurá í sumar og eyðilagði í honum vélina. Hann hefur skilað tíu milljóna króna bílnum sem hann fékk í hans stað.

Sveinbjörg Birna vill að Reynir verði rekinn

Segir Reyni Jónsson, framkvæmdastjóra Strætó BS, hafa farið út fyrir valdsvið sitt og því sé honum ekki lengur stætt á að gegna stöðu sinni áfram.

Sveinbjörg vill fá afrit af starfslokasamningi Reynis

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina, óskaði á fundi borgarráðs í gær eftir afriti af starfslokasamningi sem Strætó bs. gerði við Reyni Jónsson, fyrrverandi framkvæmdastjóra Strætó.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×