Innlent

Sérsveitarmenn tóku ekki yfir stjórn Polar Nanoq

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Vilhelm
Lögreglumenn úr sérsveit ríkislögreglustjóra tóku ekki yfir stjórn Polar Nanoq þann 18. janúar eins og fram kom í fréttum þá. Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn, segir skort á samskiptum milli starfsmanna Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hafa valdið því að fjölmiðlar hafi fengið rangar upplýsingar.

Grímur segir í tilkynningu til fjölmiðla að sérsveitarmennirnir hafi ekki tekið yfir stjórn skipsins, eins og áður kom fram, og að aðgerðin hafi verið rétt framkvæmd eins og um hafi verið beðið.

Vangaveltur hafa einnig verið uppi um að aðgerðir lögreglu um borð í Polar Nanoq gætu flækt málin fyrir dómstólum. Þrír skipverjar voru handteknir um borð í togaranum þegar hann var utan íslenskrar landhelgi, en innan íslenskrar efnahagslögsögu. Íslensk landhelgi afmarkast við tólf sjómílur en efnahagslögsagan við 200 sjómílur.

Sá fjórði var svo handtekinn þegar skipið var komið að landi og fíkniefni fundust um borð.

Alls fóru sex sérsveitarmenn um borð í togarann en þeir höfðu það hlutverk að tryggja rannsóknarvettvang um borð ásamt því að handtaka tvo skipverja við komuna um borð. Þriðji skipverjinn var handtekinn um borð nokkrum klukkustundum síðar.

Íslensk yfirvöld fengu þó ekki samþykki danskra yfirvalda. Jón H.B Snorrason, aðstoðarlögreglustjóri og saksóknari hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir í skriflegu svari við fyrirspurn fréttastofu að aðgerðin hafi ekki verið framkvæmd með aðkomu danskra yfirvalda heldur hafi alfarið verið á ábyrgð lögreglunnar og gerð á grundvelli lagalegs mats hjá embættinu. Hann segir að ákvörðunin hafi verið tekin að vel ígrunduðu máli og verði rökstudd fyrir dómstólum þegar að því kemur. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×