Innlent

Sérsveitarmenn komnir um borð í þyrlu Landhelgisgæslunnar

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Sérsveitarmenn ríkislögreglustjóra eru komnir um borð í TF-LÍF, þyrlu Landhelgisgæslunnar, en þyrlan tók á loft um klukkan hálf tólf í dag. Þetta kemur fram á vef RÚV, en þar er birt myndskeið af sérsveitarfólki og sigmanni stíga um borð í þyrluna.

Gera má ráð fyrir að þyrlan sé á leið að grænlenska togaranum Polar Nanoq, sem hélt frá Hafnarfirði á laugardagskvöld, en er væntanlegur aftur til landsins seint í kvöld að kröfu lögreglu.

Síðdegis í gær óskaði lögregla eftir aðstoð danska varðskipsins Tritons vegna málsins, en skipið hafði verið á siglingu á Faxaflóa, og herma heimildir fréttastofu að gæsluþyrla hafi flogið með nokkra íslenska sérsveitarmenn um borð í Triton, sem síðan fara væntanlega yfir í togarann, eða þá að menn úr áhöfn hans verði fluttir yfir í varðskipið til yfirheyrslu.

Einn úr áhöfn Polar Nanoq tók rauðan Kia Rio smábíl á leigu en lögreglan hafði lýst eftir ökumanni slíkrar bifreiðar í tengslum við hvarf Birnu Brjánsdóttur, sem saknað hefur verið frá því á laugardag. Samskonar bíll sást á Laugavegi um það bil sem Birna hvarf og þá sást hann einnig á eftirlitsmyndavél við Hafnarfjarðarhöfn um svipað leyti og slökkt var handvirkt á farsíma Birnu, en það á að hafa verið gert í Hafnarfirði. Lögregla lagði hald á rauðan Kia Rio við Hlíðasmára í Kópavogi í hádeginu í gær.

Lögreglan fullyrðir að enginn um borð hafi réttarstöðu grunaðs manns.

Sveinn H. Guðmarsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, sagðist ekkert geta tjáð sig um málið þegar eftir því var leitað.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×