Innlent

Sérfræðingur í persneskum teppum vann mál gegn ríkinu

Stefán Árni Pálsson skrifar
Héraðsdómur Reykjavíkur og persneskt teppi.
Héraðsdómur Reykjavíkur og persneskt teppi. visir/pjetur
Héraðsdómur Reykjavíkur sneri í dag ákvörðun Velferðarráðuneytisins sem synjaði írönskum manni um tímabundið atvinnuleyfi í lok ársins 2013.

Maðurinn hafði sótt um tímabundið atvinnuleyfi vegna þeirra sérfræðikunnáttu sem hann hafði til að selja handgerð persnesk teppi. Velferðarráðuneytið taldi ekki þurfa neina sérfræðikunnáttu til starfsins.

Maðurinn, sem kom til landsins sem námsmaður, keypti fyrirtæki af lögfræðistofunni Logos árið 2011. Sjálfur er hann framkvæmdarstjóri fyrirtækisins sem sérhæfir sig í því að flytja inn vörur frá Austurlöndum.

Vinnumálastofnun synjaði manninum fyrst um atvinnuleyfi og var þá málið sent yfir á velferðarráðuneytið þar sem niðurstaða Vinnumálastofnunar var kærð. Ráðuneytið staðfesti ákvörðun Vinnumálastofnunar.

Héraðsdómur Reykjavíkur komst aftur á móti að annarri niðurstöðu í dag og mun maðurinn því fá tímabundið atvinnuleyfi.

Fram kemur í dómsorðum að maðurinn hafi gert grein fyrir því hvaða starfsemi hann hyggst stunda. Hann sýndi einnig fram á það að sérþekking starfsmanns sé þeirri starfsemi nauðsynleg.

Einnig segir í dómsorðum:

„Þótt ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 13. maí 2013 sé ekki ítarlega rökstudd er þó vel greinanlegt að synjun stofnunarinnar er á því byggð að ekki þykir hafa verið leitað með nægilega víðtækum hætti að starfsmanni meðal þeirra sem forgang eigi að störfum, þ.e. innanlands og innan EES-svæðisins, og því sé synjað um atvinnuleyfi fyrir starfsmann utan EES-svæðisins. Í ljósi þeirra upplýsinga um eðli starfsins sem fram voru komnar af hálfu stefnanda og auglýsinga sem birtar voru í samráði við Vinnumálastofnun var fullt tilefni til þess fyrir stofnunina að kanna það nánar hvers vegna stefnanda væri nauðsyn á sérhæfðum starfsmanni og kalla eftir atvikum eftir frekari upplýsingum og röksemdum þar að lútandi hjá stefnanda áður en ákvörðun yrði tekin.“

Héraðsdómur féllst á það með manninum að galli sé á málsmeðferð Vinnumálastofnunar.

Í dómsorðum segir einnig: „Það er niðurstaða dómsins að öllu framangreindu virtu að Vinnumálastofnun og velferðarráðuneytið hafi ekki gætt þeirrar skyldu sinnar við meðferð máls stefnanda að upplýsa málið nægjanlega í skilningi 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, með því að leysa úr málinu án viðhlítandi rannsóknar á þörfum fyrirtækisins á sérhæfðum starfsmanni.“

Þá þykir Velferðarráðuneytið ekki hafa rökstutt niðurstöðu sína með þeim hætti sem áskilið er.

Íslenska ríkið var gert að greiða manninum 300.000 krónur í málskostnað þar með talinn virðisaukaskattur. Dóminn í heild sinni má lesa hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×