Erlent

Sérfræðingar segja Trump hafa rangt fyrir sér

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna. Vísir/AFP
Sérfræðingar, stjórnmálamenn og embættismenn segja Donald Trump, verðandi forseta Bandaríkjanna, hafa rangt fyrir sér í nýjasta Twitter-uppþoti sínu. Þar hélt Trump því fram að hann hefði fengið fleiri atkvæði en Hillary Clinton í forsetakosningunum, ef atkvæði „milljóna sem kusu ólöglega“ væru dregin frá. Engar vísbendingar eru hins vegar um að umfangsmikið kosningasvindl hafi átt sér stað.

Í heildina fékk Trump um tveimur milljónum færri atkvæða en Clinton, en þó vann hann á kjörmönnum með miklum meirihluta.

Græni flokkurinn vinnur nú að því að láta endurtelja atkvæði þriggja mikilvægra ríkja, MichiganPennsylvania og Wisconsin, þar sem Trump vann með tiltölulega litlum mun. Til dæmis vann hann alla 16 kjörmenn Michigan með einungis 10.704 atkvæðum meira en Clinton, en alls voru greidd tæplega 4,8 milljónir atkvæða í ríkinu.

Demókratar og Clinton hafa gengið til liðs við Græna flokkinn og hjálpa til við að reyna að fá endurtalninguna í gegn.

Trump virðist hafa brugðist reiður við þeim fréttum en í gær sendi hann frá sér nokkur tíst um málið þar sem hann hélt því fram, án nokkurra sannanna, að milljónir hefðu kosið ólöglega og ef að kjörmannakerfið hefði ekki verið til staðar hefði hann samt unnið kosningarnar.

Þingmenn úr bæði Repúblikanaflokknum og Demókrataflokknum segja Trump hafa rangt fyrir sér. Sérfræðingar segja það einnig, en samkvæmt AFP fréttaveitunni, segja þeir einnig að ummæli Trump setji hættulegt fordæmi og dragi mögulega úr trausti fólks á lýðræði.

Trump hélt því ítrekað fram fyrir kosningarnar að kerfið væri spillt og að verið væri að svindla á sér. Nú berst hann gegn því að atkvæði verði talin aftur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×