Innlent

Séreignarlífeyrinn fái að lifa áfram

Bjarki Ármannsson skrifar
Soffía Eydís telur að tillagan muni hvetja ungt fólk til að fara inn í séreignarsparnaðarkerfið.
Soffía Eydís telur að tillagan muni hvetja ungt fólk til að fara inn í séreignarsparnaðarkerfið. Vísir/Samsett
Sérfræðingahópur á vegum Landssamtaka lífeyrissjóða leggst alfarið gegn þeim hugmyndum verkefnisstjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála að heimild til að nýta séreignarsparnað til húsnæðisöflunar verði gerð varanleg. Þetta segir í áliti sérfræðingahópsins sem var gert opinbert nú í vikunni.

„Við leggjum mikla áherslu á að séreignarlífeyririnn fái að lifa áfram,“ segir Þórey S. Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða.

Þórey S. Þórðardóttir.Vísir/Valli
Eftirlaunaþegar þurfi sparnaðinn

Í skýrslu verkefnisstjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála sem birt var í maí er lagt til að heimild sé veitt, takmörkuð til nokkurra ára, til að leggja lífeyrisgreiðslur inn á fasteignalán eða upp í útborgun á íbúð. Í samtali við Fréttablaðið segir Soffía Eydís Björgvinsdóttir, formaður verkefnisstjórnar ráðherra, að sá tími gæti orðið tíu ár. Samþykkt var frumvarp á síðasta þingi þess efnis að heimilt yrði að ráðstafa séreignarsparnaði á þennan hátt á þriggja ára tímabili sem hófst þann 1. júlí síðastliðinn.

Í umsögn sérfræðingahóps lífeyrissjóðanna segir að séreignarsparnaður sé nauðsynlegur fyrir flesta til að draga úr tekjuskerðingu þegar fólk fer á eftirlaun.

„Það hefur sýnt sig að það er þörf á þriðju stoðinni til sparnaðar þegar það kemur að ellilífeyri,“ segir Þórey. „Fólk er að taka á sig tekjuskerðingu.“ 

Soffía Eydís Björgvinsdóttir.Vísir/Daníel
Ungt fólk fari í kerfið

Soffía Eydís segist meðvituð um þessar áhyggjur lífeyrissjóðanna en hún tekur ekki undir þær. Hún telur að jákvæð áhrif tillagnanna séu meiri en neikvæð áhrif á fólk sem er að fara á eftirlaun.

„Það hefur komið fram að það er nauðsynlegt að efla sparnað til húsnæðiskaupa,“ segir Soffía. „Ungu fólki veitir ekki af að geta keypt og átt fyrir útborgun á íbúð. Ég held að þetta hafi miklu frekar þau áhrif að þú fáir ungt fólk til að fara inn í séreignarsparnaðarkerfið sem hefur ekki verið inni í því.“ 

Soffía segir að verkefnisstjórnin vilji að reynslan af þessu fyrirkomulagi verði skoðuð þegar líða fer að lokum þessa þriggja ára tímabils.

„Ef það hefur reynst vel, leggjum við til að festa það í sessi,“ segir Soffía.


Tengdar fréttir

Að brúa bilið – séreignarsparnaður til húsnæðiskaupa

Kaup á íbúðarhúsnæði er ein stærsta ákvörðun sem fólk tekur á lífsleiðinni. Í augum margra, sérstaklega af yngri kynslóðinni, eru fasteignakaup orðin óyfirstíganlegt verkefni, enda húsnæðisverð hátt í samanburði við kaupmátt.

Hægt verður að nota séreignasparnað til kaupa á fyrstu íbúð

Þeir sem eiga ekki fasteign geta notað allt að eina og hálfa milljón króna af séreignasparnaði sínum skattfrjálst til kaupa á fasteign á næstu fimm árum, aðrir sem eiga séreignasparnað geta notað hann til að greiða niður húsnæðislán sín.

Borgið verðtryggð lán með séreignasparnaði

Lektor og aðjúnkt við Háskóla Íslands segja að stjórnvöld verði að hækka skatta í framtíðinni til að bæta sér upp tap af skattfrjálsum séreignasparnaði. Þeir eru sammála um það borgi sig að greiða niður verðtryggð fasteignalán með sparnaði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×