Enski boltinn

Sér Mourinho eftir að hafa látið Salah fara?

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Salah var hetja Fiorentina gegn Juventus í gær.
Salah var hetja Fiorentina gegn Juventus í gær. vísir/getty
Egyptinn Mohamed Salah hefur heldur betur öðlast nýtt líf síðan hann var lánaður frá Chelsea til ítalska liðsins Fiorentina.

Flórensliðið fékk Salah að láni á lokadegi félagaskiptagluggans en lánssamningurinn var hluti af félagaskiptum Juans Cuadrado til Chelsea en Lundúnaliðið greiddi auk þess um 23 milljónir fyrir Kólumbíumanninn.

Salah kom til Chelsea frá svissneska meistaraliðinu Basel í janúar 2014 en náði aldrei að festa sig í sessi hjá Lundúnaliðinu.

Egyptinn lék aðeins 18 leiki í bláu treyjunni og skoraði tvö mörk, annað þeirra í 6-0 sigrinum á Arsenal 22. mars 2014.

Salah hefur hins vegar blómstrað hjá Fiorentina. Hann skoraði ekki í fyrsta leik sínum fyrir félagið en hefur síðan skorað sex mörk í jafn mörgum leikjum.

Þrjú þessara marka hafa komið í Serie A. Salah skoraði sitt fyrsta mark fyrir Fiorentina í 1-3 sigri á Sassuolo og skoraði síðan mark Flórensliðsins í 1-1 jafntefli við Torino. Egyptinn skoraði svo sigurmarkið gegn Inter um helgina.

Salah hefur skorað eitt mark í Evrópudeildinni - í 2-0 sigrinum á Tottenham í seinni leiknum í 32-liða úrslitunum - og skoraði svo bæði mörk Fiorentina í 1-2 sigri á Juventus á útivelli í fyrri leik liðanna í undanúrslitum ítölsku bikarkeppninnar.

Cuadrado bíður hins vegar enn eftir sínu fyrsta marki fyrir Chelsea en hann hefur komið við sögu í sex leikjum liðsins á tímabilinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×