Innlent

Sér engin rök fyrir á­fram­haldandi ein­angrunar­vist skip­verjans

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Maðurinn var handtekinn 18. janúar síðastliðinn.
Maðurinn var handtekinn 18. janúar síðastliðinn. vísir/gva
Engin rök eru fyrir því að halda manninum sem grunaður er um að hafa ráðið Birnu Brjánsdóttur bana í einangrun vikum saman, segir Páll Rúnar M. Kristjánsson, verjandi mannsins. Of mikið sé um einangrunarvist hér á landi.

„Það er mín afstaða að hann ætti ekki að vera í einangrun [...] Ef það er afstaða dómstóla að hann eigi að vera í gæsluvarðhaldi þá er það bara afstaða dómstóla. En ég tel það algjörlega óásættanlegt að hann sé í einangrun. Ég hef ekki séð nein rök sem ég get fallist á,“ sagði Páll Rúnar í Vikulokunum á Rás 1 í morgun.

Páll Rúnar sagði alltof mikið um notkun einangrunarvistar. Leggja verði þá kröfu á herðar rannsakenda að sýna fram á að skilyrði fyrir einangrunarvist séu uppfyllt og að verði að gera með áþreifanlegum hætti.

„Það er mjög sjaldgæft að kröfu um einangrun sé hafnað af dómstólum. Til þess að hægt sé að samþykkja einangrun einstaklings þá þurfa að vera til staðar mjög ströng skilyrði,“ sagði hann. „Það er oft eins og einangrunarvist sé eitthvert svona gjafabréf á Disney-siglingu. Þetta er hræðileg afplánun.“

Aðspurður segir Páll manninn halda staðfastlega fram sakleysi sínu.„ Sem sakborningur sem heldur fram sakleysi sínu að þá nýtur hann ákveðinna réttinda. Og rétt meðal annars til að teljast saklaus þangað til að möguleg sekt hans væri endanlega sönnuð. Þótt það sé ekki alltaf vinsælt að halda þessu fram þá verður einfaldlega á þetta að benda því eins og kom fram þá eru mannréttindi ekki spariföt, þau eru hversdags. "

Maðurinn, sem var skipverji á togaranum Polar Nanoq, var handtekinn 18. janúar síðastliðinn og hefur því sætt gæsluvarðhaldi og einangrun í rúmar fimm vikur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×