Innlent

Sendir í meðferð heim til Póllands

Benedikt Bóas skrifar
Skjólstæðingar Gistiskýlisins bíða fyrir utan í gær en röðin myndast yfirleitt um fjögurleytið.
Skjólstæðingar Gistiskýlisins bíða fyrir utan í gær en röðin myndast yfirleitt um fjögurleytið. vísir/ernir
Fjórir Pólverjar eru farnir í meðferð til síns heima eftir að hafa kúldrast í Gistiskýlinu við Lindargötu í þó nokkur ár. Meðferðar­úrræði hér duga ekki sökum þess að mennirnir kunna hvorki íslensku né ensku. Pólsku samtökin Barka hafa aðstoðað við að koma lífi mannanna á réttan kjöl og fylgir einn starfsmaður Barka hverjum og einum til Póllands.

Skjólstæðingar Gistiskýlisins liggja oft í görðum hverfisins.vísir/ernir
Gistiskýlið hefur verið töluvert í fréttum að undanförnu en íbúar í nágrenninu eru margir hverjir ósáttir við það. Samkvæmt tölum lögreglunnar hefur verkefnum hennar í hverfinu fjölgað gríðarlega eftir að skýlið fluttist þangað, í október árið 2014. Lögreglan sinnti að meðaltali um 27 verkefnum sem tengdust aðstoð við borgara frá 2012-214. Fyrsta árið sem Gisti­skýlið var starfrækt fór lögreglan í 214 slík verkefni.

Sveinn Allan Morthens, forstöðumaður Gistiskýlisins, segir að unnið sé markvist að því að hjálpa skjólstæðingunum án nokkurrar þvingunar. „Þeir sem hafa farið eru ofboðslega glaðir. Þeim er fylgt út og starfsmaður frá Barka kemur þeim inn í meðferðarúrræðið.“

Hann segist skilja vel að nágrönnum skýlisins finnist ástandið ekki í lagi. „Þetta er staðan sem er og við erum að reyna að bregðast við. Það er opið hjá okkur allan sólarhringinn og þessir einstaklingar mega koma hér á klósett, fara í sturtu og fleira. Þeir eru bara orðnir svo drukknir að þeir komast ekki neitt – sem er dapurt.“

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×