Viðskipti innlent

Sendingar frá Kína tóku kipp

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Á vöruhóteli. Niðurstaða nýrrar greiningar Rannsóknaseturs verslunarinnar er að Íslendingar hafi ekki tileinkað sér netverslun í sama mæli og í nágrannalöndunum. Þróunin sé hins vegar í átt til "alverslunar“ þar sem hefðbundin verslun og netverslun vinna saman.
Á vöruhóteli. Niðurstaða nýrrar greiningar Rannsóknaseturs verslunarinnar er að Íslendingar hafi ekki tileinkað sér netverslun í sama mæli og í nágrannalöndunum. Þróunin sé hins vegar í átt til "alverslunar“ þar sem hefðbundin verslun og netverslun vinna saman. Fréttablaðið/Pjetur
Póstverslun frá Kína fór úr 123 milljónum króna í 292 milljónir króna milli áranna 2013 og 2014 samkvæmt samantekt Hagstofu Íslands fyrir Fréttablaðið. Aukningin nemur 137 prósentum á milli ára.

Að baki aukningunni er líklega fríverslunarsamningur við Kína sem tók gildi 1. júlí í fyrra, eftir að hafa verið samþykktur í ríkisstjórn í byrjun árs. Við gildistöku samningsins féllu niður tollar á 96 prósentum vara sem frá Kína koma.

Í krónum talið nemur aukningin á milli ára 169 milljónum króna í auknum innflutningi. Að þeim forsendum gefnum að aukningin sé til komin vegna fríverslunarsamningsins og nái til seinni hluta ársins og að hún haldist söm út þetta ár, má gera ráð fyrir að umfang póstverslunar frá Kína fari á þessu ári í 461 milljón króna.

Gunnar Óskarsson, lektor í viðskiptafræði við Háskóla Íslands.Fréttablaðið/Andri Marínó
„Það er nú ekki víst að sama hlutfallslega aukning verði áfram,“ segir Gunnar Óskarsson, lektor í viðskiptafræði við Háskóla Íslands, en hann hefur meðal annars sérhæft sig í rafrænum viðskiptum og markaðssetningu á netinu.

„Mesta stökkið er örugglega þegar fríverslunarsamningurinn komst á,“ segir hann.

Um leið segir Gunnar ljóst að vöxtur sé í þessari tegund verslunar. Það sem hafi breyst við fríverslunarsamninginn við Kína sé hins vegar að vörur þaðan hafi orðið hagstæðari í innkaupum.

„Og það er ekkert að breytast,“ segir hann. Og þótt Íslendingar sé ekki komnir jafnlangt á veg í netviðskiptum og nágrannaþjóðirnar þá séu þeir ekki jafnaftarlega á merinni þegar kemur að erlendri netverslun og þegar kemur að innlendri. 

„En það er gríðarleg aukning á verslun á netinu,“ segir hann og vísar til þess að nemendur hans í Háskólanum nýti netið töluvert í fatakaupum. „Við erum að fá nýja kynslóð af fólki sem hagar sér öðruvísi og ég sé ekki að þetta fari eitthvað að gjörbreytast og tel Kínaverslun bara fara vaxandi.“

Á móti komi svo að fólk sé enn að fóta sig í þessum innkaupum og reki sig stundum á að gæði varningsins séu ekki þau sem búist hafði verið við og svo geti komið upp aðrir hnökrar. „En mér finnst fólk tiltölulega afslappað gagnvart þessu samt,“ segir hann og bendir á að fólk leiti til dæmis í auknum mæli til saumastofa til að láta laga til föt sem ekki hafi passað alveg.

„Oft er það ódýrara og þægilegra en að standa í að skila og endursenda.“

Vörukaup á netinu sjö milljarðar króna

Netverslunin Aliexpress, í eigu kínversku samstæðunnar Alibaba sem í fyrra var skráð á markað í Bandaríkjunum, er að baki stórum hluta póstverslunar frá Kína. Þar er hægt að panta fatnað, raftæki, skótau, íþróttavörur, veiðivarning, varahluti og margvíslegar vörur aðrar. Verði sama aukning og verið hefur verður póstverslun frá Kína verulegur hluti netverslunar. Í nýrri greiningu frá Rannsóknarsetri verslunarinnar, „Íslensk netverslun: Greining á stöðu og framtíðarhorfur“, sem út kom í byrjun ársins eru vörukaup Íslendinga á netinu sögð geta numið um sjö milljörðum króna á ári, eða tveimur prósentum af heildarumfangi smásöluverslunar hér. Skýrsluhöfundar, Stefán Kalmansson og Emil B. Karlsson, segja þá upphæð skiptast nokkurn veginn til helminga á milli kaupa frá innlendum og erlendum aðilum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×