Innlent

Sendiherrann sagður einlægur og ábyggilegur maður

Jakob Bjarnar skrifar
Arnþór átti í mjög góðu samstarfi við Ma Jisheng, meðan hann var á Íslandi, og honum er brugðið vegna nýjustu frétta af afdrifum hans.
Arnþór átti í mjög góðu samstarfi við Ma Jisheng, meðan hann var á Íslandi, og honum er brugðið vegna nýjustu frétta af afdrifum hans.
Kínverskir fjölmiðlar greindu frá því í morgunMa Jisheng, sendiherra Kína á Íslandi, hafi verið handtekinn ásamt konu sinni grunaður um njósnir fyrir Japan. Arnþóri Helgasyni, er brugðið. Hann er formaður Kínversk-íslenska menningarfélagsins og vinuáttusendiherra Kínverja á Íslandi, og þekkir Ma Jisheng ágætlega. Og honum koma þessar nýjustu fregnir ekki alveg í opna skjöldu þó honum sé verulega brugðið.

Misvísandi sögur um afdrif Ma Jisheng

„Þetta voru fyrstu sögusagnirnar sem ég heyrði, sennilega í júní og fékk þær svo staðfestar í ágúst. Síðan fékk ég aðrar heimildir, að þetta stafaði af fjölskylduvandræðum,“ segir Arnþór og vísar þá til óljósra fregna þess efnis að Ma Jisheng væri horfinn. „En, ef þetta er rétt þá var því meðal annars haldið fram við mig í júlílok að um gæti verið að ræða óþarflega mikla upplýsingagjöf á meðan hann stýrði upplýsingaveitu utanríkisráðuneytisins í Kína, eða þetta væri vegna fjármála sendiráðsins í Japan, en þar fara um miklir fjármunir vegna fjölda vegabréfsáritana.

Ma Jisheng var sendiherra Kína á Íslandi frá árinu 2012 og til byrjunar árs 2014 en þá var sem hann hafi horfið sporlaust. „Sé þessi frétt á rökum reynst, (það er handtakan), þá þykir mér það mjög leitt. Því að við hjá Kínversk-íslenska menningarfélaginu áttum mjög gott samstarf við þennan mann. Og ég sem kunningi hans óska honum í raun og veru einskis annars en alls góðs.“

Einlægur maður

Arnþór segir þetta slæm tíðindi því Ma Jisheng er mætur maður í hans bókum. „Já, mér kom hann fyrir sjónir sem fremur áreiðanlegur maður og einlægur. En, það þekkir að vísu enginn allar hliðar hvers einstaklings. Hver maður á sér hliðar sem ekki kannski opinberast. Hitt er svo annað mál að svona upplýsingaleki getur stafað af óaðgæslu. Og ég trúi því ekki fyrr en á reynir að þessi maður hafi reynt að skaða hagsmuni Kínverja með því að deila upplýsingum í Japani.“

Gæti átt yfir höfði sér dauðadóm

Viðurlög við njósnum eru hörð í Kína, að sögn Arnþórs, geta verið allt frá margra ára fangelsisvist og allt uppí dauðadóm. „Nú veit ég ekki hversu alvarlegt þetta brot verður og vona að kínverska réttarfarið rannsaki þetta mál og dómurinn verður þá samkvæmt niðurstöðunum sem vonandi verða sanngjarnar. Það er mikil áhersla lögð á að berjast gegn spillingu af hálfu núverandi stjórnvöldum í Kína. Og, það er einnig lögð mikil áhersla á að framfylgt sé þeim réttarfarsreglum sem samþykkar voru á síðasta þingi. Og það skiptir öllu máli að við það verði staðið,“ segir Arnþór Helgason.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×