Innlent

Sendiherra Kína á Íslandi handtekinn vegna gruns um njósnir

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Sendiherra Kína á Íslandi, Ma Jisheng.
Sendiherra Kína á Íslandi, Ma Jisheng.
Sendiherra Kína á Íslandi, Ma Jisheng, og eiginkona hans, Zhong Yue, hafa verið handtekin af kínverskum yfirvöldum vegna gruns um njósnir í Japan, samkvæmt kínverskum fjölmiðlum. Fullyrt er að þau hafi verið handtekin í byrjun árs 2014. Jafnframt kemur fram að grunur leiki á að Jisheng hafi lekið upplýsingum til japanskra stjórnvalda þegar hann var hluti af diplómatateymi Kínverja í Japan.

Urður Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins, segir í samtali við Vísi að tilkynning hafi borist frá kínverska sendiráðinu í maí síðastliðnum um að sendiherrann myndi ekki snúa aftur til starfa vegna persónulegra ástæðna. Hans varamaður hefur því gengt starfi sendiherra síðan þá.

Hún segir jafnframt að sendiherrann hafi haldið af landi brott í janúar síðastliðnum og hugðist snúa aftur í mars. Ekkert varð þó af þeirri heimkomu, og eins og fyrr segir, barst tilkynning í maí um að hann myndi ekki snúa aftur til starfa.

Stefán Skjaldarson, sendiherra Íslands í Kína, sagði í samtali við DV að fjarvera hans stafi af fjölskylduástæðum eingöngu, erfiðs heilsufars aldraðra foreldra sendiherrans og að hann hafi óskað eftir leyfi frá störfum til að sinna þeim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×