Fótbolti

Sendiherra Íslands gefur danska fótboltalandsliðinu góð ráð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vísir/Samsett mynd
Íslenska fótboltalandsliðið hefur aldrei verið ofar á FIFA-listanum en þessi misserin og Danir horfa nú öfundaraugum á velgengi íslenska liðsins á meðan danska liðið hrynur niður styrkleikalistann.

Ísland var í 27. sæti á síðasta lista, 19 sætum ofar en Danir, en fer væntanlega upp í 21. sæti á næsta lista. Danir detta aftur á móti niður um fjögur sæti eða alla leið í 50. sætið. Danir verða því væntanlega 29 sætum á eftir Íslandi á nýjum FIFA-lista.

Politiken fjallar um íslenska landsliðið og ber saman ferðalag Íslands og Danmerkur á FIFA-listanum þar sem Danir hafa farið úr 11. sæti niður í það 50. en Íslendingar úr 112. sæti upp í það 21.

Íslenska landsliðið er taplaust á toppi síns riðils í undankeppninni en Danir eru í 4. sæti í sínum riðli og hafa tapað tveimur af fyrstu þremur leikjum sínum.

Benedikt Jónsson, Sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn, mætti á leik Dana og Svartfellinga í undankeppni þar sem Danir töpuðu 1-0. Politiken nýtti tækifærið og fékk hans mat á gengi landsliðanna tveggja.

„Ég varð fyrir vonbrigðum með leikinn í gær. Kannski er vandamálið að þið einblínið of mikið á of fáa leikmenn. Lýsendurnir tala nánast bara um Christian Eriksen,“ sagði Benedikt Jónsson en hann viðurkenndi um leið að hafa ekki meira vit á fótboltanum en að hafa leikið sér með boltann þegar hann var strákur.

Blaðamaður Politiken spurði Benedikt um hvaða ráð hann gæti gefið danska landsliðinu í fótbolta?

„Það eru ellefu leikmenn í liði. Íslenska leiðin er að einblína á allt liðið en ekki einstaklingana,“ sagði Benedikt en er hann bjartsýnn á það að Ísland komist á HM í fyrsta sinn?

„Það eru bara nokkrir leikir búnir og það er erfitt að spá fyrir um það núna. Það voru samt ekki margir sem bjuggust við því að Ísland kæmist til Frakklands. Þeir eru í erfiðum riðli með Króatíu, Tyrklandi og Úkraínu en af hverju ekki?,“ sagði Benedikt.  Það má finna viðtalið við hann og umfjöllunina hér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×