Innlent

Sendiherra hvetur Íslendinga í Osló til að halda sig frá miðborginni

Heimir Már Pétursson skrifar
Sendiherra Íslands í Noregi skorar á Íslendinga í Osló að fara ekki í miðborgina á morgun nema þeir eigi brýnt erindi, vegna hótunar um hryðjuverk þar á morgun. Hann segir hryðjuverkamenn þegar hafa náð sínu fram að hluta með því að sá ótta meðal almennings.

Norska lögreglan greindi frá því á fimmtudag að hætta væri á því að hryðjuverk yrði framið í landinu á næstu dögum, að öllum líkindum á morgun Mánudag. Gunnar Pálsson sendiherra Íslands í Noregi segir íbúa í Osló verða vara við aukinn viðbúnað lögreglu.

„Almenningur er svosem engu nær um það hvort hryðjuverkamenn láti til skara skríða á morgun eða ekki. Það vitum við ekkert um. Hins vegar held ég að norska lögreglan sé við öllu búin. Ég tek eftir því að það er mikill viðbúnaður í borginni. Lögreglan er mjög sýnileg hérna í miðbænum,“ segir Gunnar.

Ráðstafanir hafi verið gerðar á flugvöllum þannig að það sé orðið tafsamt að fara um alþjóðaflugvöllinn við Osló. „Og þeir eru með vörð við allar helstu stjórnarbyggingum og við konungshöllina. Það vill nú svo til að sendiráð Íslands er andspænis utanríkisráðuneytinu hér í miðbænum og við hornið á Hallargarðninum. Þannig að við erum á frekar viðkvæmum stað,“ segir Gunnar.

Hann segir fáa á ferli í Osló, miðborgin sé nánast tóm. Sendiráðið geri líka sínar ráðstafanir.

„Ég ætla til dæmið að hvetja Íslendinga sem höfðu hugsað sér að koma í sendiráðið á morgun að bóka frekar einhvern annan dag. Að gera sér ekki far í bæinn á meðan þetta óvissuástand ríkir, ef það getur komist hjá því,“ segir sendiherrann.

Norðmenn taki þessari hótun mjög alvarlega og séu meðvitaðir um hættuna. Þótt hryðjuverkamenn láti oftast til skara skríða þegar fólk er óviðbúið. En á vissan hátt sé ákveðinn skaði skeður þegar hryðjuverkaöflum takist að koma fólki í ójafnvægi.

„Það er best að vera við öllu búinn og við ætlum þess vegna sjálf að hafa litla dekkun í sendiráðinu á morgun vegna þessara viðvarana sem lögreglan hefur gefið út og munum sömuleiðis hvetja Íslendinga til þess að leggja ekki leið sína í miðbæinn nema þeir eigi brýnt erindi,“ segir Gunnar Pálsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×