Erlent

Sendiherra Breta gagnvart ESB hættir óvænt

Atli Ísleifsson skrifar
Útgönguferlið á að taka tvö ár en margir efast um að sá tímarammi haldi.
Útgönguferlið á að taka tvö ár en margir efast um að sá tímarammi haldi. Vísir/Getty
Ivan Rogers, sendiherra Bretlands gagnvart Evrópusambandinu, hefur óvænt tilkynnt að hann hætti störfum. Financial Times greinir frá þessu.

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, hefur áður greint frá því að breska ríkisstjórnin muni hefja formlega Brexit-ferlið með því að virkja 50. grein Lissabon-sáttmálans fyrir marslok, en búist var við að Rogers myndi gegna lykilhlutverki í þeim samningaviðræðum sem framundan eru.

Rogers á að hafa greint samstarfsfólki sínu frá þessu í morgun og hafi tilkynningin komið sem þruma úr heiðskíru lofti. Hann á ekki að hafa greint frá sérstakri ástæðu afsagnarinnar, en reynt að draga úr áhrifum afsagnarinnar þar sem skipunartími hans renni hvort eð er út í nóvember á þessu ári.

Rogers vakti nýlega athygli þegar hann sagði að það gæti tekið tíu ár fyrir Breta og ESB að ná saman um samning um viðskiptatengsl þeirra eftir útgöngu Breta.

Útgönguferlið á að taka tvö ár en margir efast um að sá tímarammi haldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×