Innlent

Sendi upplýsingar í eineltismáli í leyfisleysi

ingvar haraldsson skrifar
Áminningarferli stóð yfir gagnvart forstöðumanninum þegar greinargerðin var send.
Áminningarferli stóð yfir gagnvart forstöðumanninum þegar greinargerðin var send. mynd/einar ólafsson
 Forstöðumanni stofnunar sem heyrir undir Kópavogsbæ var óheimilt að dreifa viðkvæmum persónuupplýsingum um undirmann sem sakað hafði hann um einelti. Þetta er niðurstaða Persónuverndar sem hefur úrskurðað í málinu.

Velferðarsvið Kópavogs sendi forstöðumanninum greinargerð um eineltismálið þar sem áminningarferli stóð yfir gagnvart honum. Í greinargerðinni komu fram kvartanir undirmannsins, sem var kvenkyns, gagnvart forstöðumanninum, og viðtöl við samstarfsmenn þeirra vegna málsins.

Forstöðumaðurinn sendi greinargerðina í tölvupósti til samstarfsmanna konunnar þrátt fyrir að greinargerðin væri merkt trúnaðarmál. Forstöðumaðurinn segist hafa sent tölvupóstana sem einstaklingur en ekki yfirmaður hjá stofnuninni. Hann hafi viljað athuga hvort rétt hefði verið haft eftir samstarfsmönnum konunnar. Persónuvernd bendir hins vegar á að það sé Kópavogsbæjar en ekki mannsins að athuga hvort rétt sé eftir starfsfólki haft.

Í úrskurði Persónuverndar kemur fram að konan hafi ekki greint samstarfsmönnum sínum frá þeim viðkvæmu persónupplýsingum sem fram komu í greinargerðinni líkt og forstöðumaðurinn hafi haldið fram. Hún hafi einungis gefið samstarfsmönnum sínum skýringar á veikindaleyfi sem hún hafi farið í vegna málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×