Viðskipti innlent

Sendi Seðlabankanum tóninn á Viðskiptaþingi

Jóhannes Stefánsson skrifar
Sigmundur Davíð segir að Seðlabankinn hafi lagt meiri vinnu í að greina skuldaleiðréttinguna heldur en áhrif Icesave samningana á íslenska þjóðarbúið.
Sigmundur Davíð segir að Seðlabankinn hafi lagt meiri vinnu í að greina skuldaleiðréttinguna heldur en áhrif Icesave samningana á íslenska þjóðarbúið. GVA
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, sendi Seðlabankanum tóninn í ræðu sinni á Viðskiptaþingi sem fór fram á Nordica í dag.

„Seðlabanki Íslands birti í morgun greiningu sína á áhrifum skuldaleiðréttingarinnar. Það er út af fyrir sig áhugaverð forgangsröðun að Seðlabankinn skuli leggja mikla vinnu í slíka greiningu óumbeðinn, á meðan ríkisstjórn Íslands bíður enn eftir greiningu á greiðslujöfnuði Íslands sem óskað var eftir fyrir nokkru síðan,“ sagði forsætisráðherra.

Telur Seðlabankann eyða orku í röng verkefni

Í framhaldi af þessu sagði hann: „Enn áhugaverðara er að sjá að einar helstu áhyggjur Seðlabankans snúa að því að leiðréttingin muni virkja peningamagn í umferð á næstu fjórum árum. Ekki er þó minnst á að afnámsferli Seðlabankans hefur virkjað meira en tvöfalda þá upphæð af nýju peningamagni með sama hætti án þess að Seðlabankinn hafi séð ástæðu til að fjalla um áhrif þeirra aðgerða á sama hátt.“

Forsætisráðherra hélt áfram að skjóta föstum skotum að stofnuninni: „Ég neita því ekki að það læðist að mér sú spurning hvers vegna hagfræðideild Seðlabankans eyðir að því er virðist meiri tíma og orku í ítarlega greiningu á áhrifum skuldaleiðréttingar fyrir íslensk heimili en eytt var í greiningu á áhrifum Icesave samninganna á sömu heimili," sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra.

Már Guðmundsson seðlabankastjóri vildi ekki tjá sig um þessi ummæli forsætisráðherra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×