Erlent

Senda flugmóðurskip til Mið-Austurlanda

Samúel Karl Ólason skrifar
Hollande sagði að ástandið í Frakklandi réttlæti það að senda flugmóðurskip til Mið-Austurlanda.
Hollande sagði að ástandið í Frakklandi réttlæti það að senda flugmóðurskip til Mið-Austurlanda. Vísir/AFP
Francois Hollande, forseti Frakklands, tilkynnt í dag að flugmóðurskip yrði sent til Mið-Austurlanda. Þeir ætla að taka stærri þátt í baráttunni gegn Íslamska ríkinu í Sýrlandi og Írak. Þá hefur saksóknurum verið skipað að berjast frekar gegn hatursræðu, gyðingahatri og vegsömun hryðjuverka.

Hollande sagði að ástandið í Frakklandi réttlæti það að senda flugmóðurskip á vettvang. Tuttugu manns létust í hryðjuverkaárásum í landinu í síðustu viku og einn árásarmannanna sagðist vera á vegum ISIS.

Samkvæmt AP fréttaveitunni framkvæma Frakkar þegar loftárásir gegn ISIS.

Á vikutíma hafa 54 verið handteknir í Frakklandi vegna hatursræðu og stuðnings við hryðjuverk. Tíu þúsund hermenn og 120 þúsund lögreglumenn ganga nú um götur Frakklands og standa vörð um opinber svæði, skóla gyðinga, bænahús, moskur og samgöngustöðvar.

Enginn af þeim 54 sem hafa verið handteknir hafa þó verið tengdir við hryðjuverkaárásirnar og AP segir það vekja spurningar um hvort að ríkisstjórn Hollande sé að brjóta gegn tjáningarfrelsinu sem þeir segjast vera að verja.

Meðal hinna handteknu er fólk sem er undir lögaldri, aðilar sem hafa áður verið handteknir fyrir álíka brot og Dieudonne sem er vinsæll, en umdeildur, grínisti sem hefur oft verið dæmdur fyrir rasisma og gyðingahatur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×