Innlent

Senda á drenginn út til Noregs eigi síðar en 4. desember

Jakob Bjarnar skrifar
Elva Christina með syni sínum. Ef hæstiréttur staðfestir dóm héraðsdóms verða jólin ekki mjög gleðileg hjá fjölskyldunni, svo mikið er víst.
Elva Christina með syni sínum. Ef hæstiréttur staðfestir dóm héraðsdóms verða jólin ekki mjög gleðileg hjá fjölskyldunni, svo mikið er víst. visir/Anton
Blásið hefur verið til samstöðufundar þann 25. október vegna drengsins sem senda á til Noregs þar sem honum verður komið í vist meðal vandalausra næstu 14 árin, eða svo. Fundurinn verður haldinn á Austurvelli klukkan 17. Yfirskriftin er „Baráttan um barnið“.

Vísir hefur greint ítarlega frá málinu með viðtölum við móður drengsins Elvu Christinu og ömmu sem flúði með drenginn heim til Íslands þegar fyrir lá að barnaverndaryfirvöldin norsku vildu senda drenginn, sem er fimm ára gamall, frá fjölskyldu sinni og í fóstur. Nýverið féll svo dómur í héraðsdómi Reykjavíkur á þá leið að senda bæri drenginn til Noregs.

Vísir ræddi við ömmu drengsins, Helenu Brynjólfsdóttur og hún segir að ekki sé um neina skipulagða dagskrá að ræða en það er Jæja-hópurinn sem gengst fyrir fundinum.

„Nú er áfrýjun í gangi fyrir hæstarétti. Oddgeir Einarsson lögmaður okkar hefur verið í sambandi við Braga Guðbrandsson hjá Barnaverndarstofu. Verið er að athuga hvort barnaverndin á Íslandi geti tekið að sér málið. Einnig hefur lögmaður okkar hér og í Noregi farið þess á leit við norsku barnaverndina og sent henni formlegt bréf þar um,“ segir Helena.

Engin svör hafa borist frá Noregi en samkvæmt dómi í héraði ber að senda drenginn úr landi eigi síðar en 4. desember.

„Ómögulegt er að segja til um hvort við höldum gleðileg jól eða ekki. Við vonum svo innilega að hæstiréttur sjái að þarna er verið að brjóta á mannréttindum drengs sem ekki hefur gert neitt af sér,“ segir Helena.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×