Innlent

Semja um munkaklaustur á næsta ári

Freyr Bjarnason skrifar
Til stendur að munkar fái afnot af Úlfljótsvatnskirkju á næsta ári.
Til stendur að munkar fái afnot af Úlfljótsvatnskirkju á næsta ári. Mynd/ Ragnhildur Eysteinsdóttir
Stefnt er að því að á næsta ári verði gengið frá langtímasamningi milli Skógræktarfélags Íslands og kaþólsku kirkjunnar um að munkaklaustur verði staðsett að Úlfljótsvatni.

Skógræktarfélagið keypti jörðina fyrir þremur árum ásamt skátahreyfingunni af Orkuveitu Reykjavíkur. „Við eigum kirkjuna sem er þarna [Úlfljótsvatnskirkju] og það er unnið að því að þarna verði kirkjuleg eining frá kaþólsku kirkjunni. Það er gert ráð fyrir því að það komi þarna munkar,“ segir Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands. Skrifað hefur verið undir viljayfirlýsingu til eins árs um áframhaldandi leigu á eignum Skógræktarfélags Íslands á svæðinu, þar á meðal kirkjunni.

Stærð landsins er um 1.500 hektarar og að sögn Magnúsar er einnig ætlunin að rækta þar skóg. „Þarna eiga allir að fá tækifæri til að fara um landið. Það er hlutverk okkar skógræktarfélaga að gefa almenningi kost á því að nýta sér það.“

Kaþólska kirkjan hefur unnið hörðum höndum að því að klaustrið geti orðið að veruleika. Í hirðisbréfi Péturs Bürcher, biskups kaþólsku kirkjunnar, frá því í febrúar síðastliðnum kemur fram að til standi að koma á fót klaustri fyrir karlmenn „helst af Benedikts- eða Ágústínusarreglu sem réðu reyndar á miðöldum yfir nokkrum klaustrum á Íslandi. Stórt land með húsakosti og upphitaðri kirkju er þegar fundið á Úlfljótsvatni,“ segir í bréfinu.

Þar vonast hann til að finna munka til að dvelja í klaustrinu og biður fyrir því að það takist. „Ég hef þegar lagt mig mikið fram við að finna munka og vona að draumur minn verði brátt að veruleika, draumur sem einnig margir aðrir, jafnt hérlendis sem erlendis, deila orðið með mér.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×