Lífið

Semja dansverk í plötugerð

Adda Soffía Ingvarsdóttir skrifar
Halla, í pelsinum, ásamt Amöndu Apetrea.
Halla, í pelsinum, ásamt Amöndu Apetrea. Vísir
„Við erum báðar haldnar þráhyggju um hugmyndina um rokkstjörnur,“ segir Halla Ólafsdóttir dansari, sem ásamt Amöndu Apetrea sýnir verkið Dead Beauty and the Beast á Reykjavík Dance Festival. „Verkið DEAD Beauty and the Beast er sjálfstætt framhald af verkinu okkar Beauty and the Beast, sem hefur farið sigurför um heiminn.

Verkið er enn í vinnslu og við munum deila hluta af verkinu með áhorfendum,“ segir Halla. Fyrra verkið var rokktónleikar, dulbúnir sem danssýning og því fannst þeim liggja vel við að næsta verk yrði plata og í gegnum gerð plötunnar semja þær dansverk. Textarnir sem þær skrifa segir Halla vera blöndu af ljóði (poem) og klámi (porn) og þær kalla poernm.

„Við erum mikið að vinna með kynlíf, kynhegðun, muninn á fantasíu og veruleika og allskyns klisjum. Það vonandi leiðir til þess að við fáum aðrar hugmyndir en þessar fyrirframákveðnu. Við erum að leika okkur með klisjur og þá hluti sem okkur finnast skemmtilegir,“ segir Halla.

Halla með The Knife á Iceland AirwavesVísir/Ernir
Síðustu tvö ár hefur Halla unnið með hljómsveitinni The Knife, sem kom fram á sínum síðustu tónleikum á Iceland Airwaves. „Það var ótrúlegur lúxus að vera með þeim svona lengi, þar sem verkefnin í dansinum eru yfirleitt tímabundin. Þarna gafst okkur tækifæri til þess að búa til verk í lotum og það að geta farið frá hugmyndinni og komið að henni aftur, gefur henni eigið líf,“ segir Halla. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×