Lífið

Selmubaninn fær ekki að vera kynnir á undankeppni Eurovision í Svíþjóð

Birgir Olgeirsson skrifar
Charlotte Perrelli.
Charlotte Perrelli. Vísir/Getty
Söngkonan Charlotte Perrelli fær ekki að vera einn af kynnum undankeppni söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, Eurovision, í Svíþjóð. Perrelli átti að vera kynnir ásamt Ginu Dirawi á Melodifestivalen en sænsk ríkissjónvarpið ákvað að draga þá ákvörðun til baka vegna þess að Perrelli hafði verið andlit auglýsingaherferðar sænska fjarskiptafyrirtækisins Comviq.

Reglur sænska ríkissjónvarpsins kveða á um að ef einhver hefur birst í auglýsingu fyrir einkafyrirtæki þá þurfi að líða ákveðinn langur tími frá auglýsingaherferðinni þangað til að hann má sjást í útsendingu ríkisfjölmiðilsins.

Einhver mistök urðu við samningagerðina á milli SVT og Perrelli sem varð þess valdandi að ekki hafði liðið nógu langur tími frá því auglýsingaherferðinni lauk og þar til Melodifestivalen á að hefjast.

Margir muna eftir Perrelli úr Eurovision-keppninni árið 1999 í Jerúsalem þar sem hún bar sigur úr býtum með lagið Take Me to Your Heaven, en hét þá Charlotte Nilsson. Lagið fékk 163 stig, 17 stigum meira en flytjandinn sem endaði í öðru sæti það ár, Selma Björnsdóttir með lagið All Out of Luck.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×