Íslenski boltinn

Selma Sól: Sigrarnir á litlu liðunum skila toppsætinu

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Breiðablik er á toppi Pepsi deildar kvenna þegar Íslandsmótið er hálfnað. Blikar hafa aðeins tapað einum leik, gegn Íslandsmeisturum Þór/KA, og unnið hina átta leiki sína. Landsliðskonan Selma Sól Magnúsdóttir hefur farið á kostum í Blikaliðinu í sumar.

„Við erum allar vel nánar. Við þekktumst ekki mikið fyrir tímabilið en náðum að þjappa okkur vel saman og það hefur sýnt mikinn árangur,“ sagði Selma Sól við Júlíönu Þóru Hálfdánardóttur í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær.

„Maður kemur alltaf inn í leikina við stóru liðin með hugarfarið að við verðum að vinna og það er alltaf léttara að undirbúa sig andlega en maður þarf að vera miklu betur undirbúinn fyrir hin liðin. Það hefur gengið vel núna og ég held að það skili okkur toppsætinu, sigrarnir við litlu liðin.“

Blikar hafa skorað 21 mark í sumar en aðeins fengið á sig sex. Eins og svo oft áður á þessum árstíma munu Blikar horfa á eftir sterkum póstum í sínu liði út til Bandaríkjanna í háskólanám á komandi vikum. Selma Sól er þeirra á meðal.

„Við komum alltaf heim á sumrin, en það kemur bara maður í manns stað. Við erum með breiðan hóp og ég hef engar áhyggjur af þessu, við erum allar tilbúnar í stórt hlutverk eins og við höfum sýnt. Við erum ungar en erum samt allar búnar að stíga upp,“ sagði Selma Sól Magnúsdóttir.

Næsti leikur Blika er stórleikur og grannaslagur við Stjörnuna. Þegar liðin mættust á Samsungvellinum í fyrstu umferð voru skoruð átta mörk, Blikar unnu 2-6, í leik þar sem veðurguðirnir ákváðu að kyngja niður snjónum á meðan leik stóð. Snjórinn ætti þó að halda sig fjarri á Kópavogsvelli á morgun.

Sjónvarpsleikur 10. umferðar er fallslagur FH og HK/Víkings. Sá leikur fer fram í Kaplakrika í kvöld og hefst útsending á Stöð 2 Sport klukkan 19:05.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×