Innlent

Selfyssingar koma farangurslausum og illa lyktandi skátum til bjargar

Atli Ísleifsson skrifar
Skátamótið stendur frá 25. júlí til 2. ágúst.
Skátamótið stendur frá 25. júlí til 2. ágúst. World Scout Moot

Selfyssingar hafa komið fjölda erlendra skáta til bjargar eftir að farangur þeirra skilaði sér ekki til landsins. Skátarnir eru staddir hérlendis í tilefni af alþjóðlega skátamótinu World Scout Moot.

Í tilkynningu frá aðstandendum mótsins segir að sjálfboðaliðar hafi verið í stöðugum ferðum milli Keflavíkurflugvallar og keyrt farangur út til staðanna ellefu þar sem skátarnir vinna nú sjálfboðavinnu. Ekki sé enn ljóst hvenær allir verði búnir að fá farangurinn í hendur. 

Hermann Sigurðsson, framkvæmdastjóri Bandalags íslenskra skáta, segir að það hafi verið hlýtt undanfarna daga og ýmsir skátanna séu við erfiðisvinnu þannig að „sumir þeirra séu orðnir ansi illa lyktandi enda búnir að vera í sömu fötunum frá því þeir komu til landsins.”

Í tilkynningunni segir að íbúar á Selfossi hafi brugðist skjótt við þegar sjálfboðaliðarnir komu þangað í gær og farið strax af stað og safnað dýnum, svefnpokum og öðru nauðsynlegu til þess að aðstoða farangurslausa skáta.

„Skátar án farangurs í Vestmannaeyjum fengu inni í Skátastykki, húsnæði skátanna þar, og fengu að sofa þar. Skátarnir eru dreifðir um allt land við sjálfboðavinnu en á laugardag safnast þeir saman á Úlfljótsvatni. Þar er undirbúningur í fullum gangi og hefur vindur verið að gera skátunum erfitt fyrir en tjöld hafa verið að fjúka en almennt gengur undirbúningurinn vel,“ segir í tilkynningunni.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×