Viðskipti erlent

Seldu þrjár milljónir iPad mini á þremur dögum

Apple tilkynnti í dag að yfir þrjár milljónir iPad mini og fjórðu kynslóðar iPad-spjaldtölva hefðu selst um opnunarhelgina en sala á þeim hófst 23. október. Þetta eru tvöfalt fleiri spjaldtölvur en seldust opnunarhelgina á iPad í mars síðastliðnum.

Samkvæmt greiningarfyrirtækinu Forrester er áætlað að Apple selji um 62 milljónir iPad-spjaldtölva á þessu ári. iPadinn sem fór í sölu á föstudag er minni útgáfa af hinum hefðbundna iPad og svo uppfærsla á þriðju kynslóð af spjaldtölvunni.

Snertiskjár nýju spjaldtölvunnar er 7.9 tommur. Á stærri útgáfu iPad er skjárinn 9.7 tommur. Þrátt fyrir þetta er upplausn snertiskjásins á iPad Mini jafn há og á fyrri útgáfum spjaldtölvunnar. iPad Mini er jafnframt ódýrasta spjaldtölva Apple frá upphafi en hún mun kosta rúmlega 40 þúsund krónur.

Þá var einnig tilkynnt í gær að Apple hefði selt yfir 100 milljónir spjaldtölva frá því að iPad komst fyrst á markað fyrir rúmlega tveimur árum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×