Viðskipti innlent

Seldu sushi fyrir rúmar 300 milljónir

Sæunn Gísladóttir skrifar
Sushi er einn vinsælasti rétturinn á Íslandi.
Sushi er einn vinsælasti rétturinn á Íslandi.
Sushisamba ehf., sem rekur samnefndan veitingastað í miðbæ Reykjavíkur, hagnaðist um 27,9 milljónir króna árið 2015. Hagnaðurinn jókst töluvert milli ára, en hann nam 16,6 milljónum króna árið 2014.

Rekstrartekjur jukust einnig, þær námu 337 milljónum á síðasta ári, samanborið við 308 milljónir árið áður.

Eigið fé í lok ársins nam 21,1 milljón króna og lækkaði það um fjórar milljónir milli ára. Eignir í árslok námu 65,7 milljónum, samanborið við 54 milljónir árið áður. Skuldir námu 44,6 milljónum króna, samanborið við 29 milljónir árið áður.

Í árslok 2015 áttu tveir hluthafar yfir 10 prósenta eignarhlut í félaginu, BBN ehf. átti 60 prósenta hlut, en Gunnsteinn Helgi Maríusson átti 20 prósenta hlut. Ingimundur Valmundsson átti 10 prósenta hlut í félaginu og Sushisamba ehf. átti 10 prósent í sjálfu sér. Sushisamba var einn af tíu vinsælustu veitingastöðum landsins í byrjun árs samkvæmt tölum frá Meniga.

Framkvæmdastjóri í árslok var Gunnsteinn Helgi Maríusson. Ársverk voru samtals sautján.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×