Innlent

Sekt fyrir ferð að Holuhrauni: „Við lítum á þetta meira svona sem einhverjar aðvaranir fyrir túristana“

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Lokunarskilti sem sett var upp meðan gosið í Holuhrauni stóð yfir.
Lokunarskilti sem sett var upp meðan gosið í Holuhrauni stóð yfir. vísir/vilhelm
Þrír menn voru dæmdir til greiðslu sektar í Héraðsdómi Norðurlands eystra á dögunum fyrir að aka inn á bannsvæði meðan eldgosið í Holuhrauni stóð yfir.

Mennirnir óku inn á svæðið á tveimur bílum við Grænavatn í Mývatnssveit. Í skýrslutökum hjá lögreglu viðurkenndu mennirnir að hafa ekið inn á svæðið og tekið eftir einhverjum lokunum. Þá hafi þeir einnig vitað af ferðabanninu en „forvitnin hafi rekið þá áfram“.

Fyrir dómi báru þeir því við að hafa ekki vitað af lokuninni. Þeir hefðu verið á vel útbúnum bílum og feikilega vanir ferðum inn á hálendið. Þeir hefðu tekið eftir lokunarskiltinu við Grænavatn en talið það „týpískt Vegagerðarskilti. [..] [V]ið lítum á þetta meira svona sem einhverjar aðvaranir fyrir túristana og við bara höldum okkar ferðalagi og þykjumst bara, eða vitum bara, hvenær okkur er óhætt að halda áfram,“ sagði meðal annars í vitnisburði þeirra fyrir dómi.

Þremenningunum var öllum gerð 80.000 króna sekt en ökumenn bifreiðanna fengu 5.000 króna sekt að auki fyrir að virða umferðarmerki að vettugi. Sex daga fangelsi kemur í stað sektanna verði þær eigi greiddar innan sex vikna.

Auk þess var mönnunum gert að greiða málsvarnarlaun og kostnað verjanda síns, alls tæplega 1,4 milljónir króna.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.


Tengdar fréttir

Fleiri ákærðir fyrir brot við Holuhraun

Þrír einstaklingar hafa verið ákærðir fyrir að hafa þann 4. september árið 2014 ekið inn á svæði sem lögreglustjórar á Húsavík og Seyðisfirði höfðu lokað fyrir allri umferð vegna eldgoss í Holuhrauni og yfirvofandi flóðahættu úr Dyngjujökli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×