Erlent

Seinka afhendingu herskips til Rússa

Samúel Karl Ólason skrifar
Um er að ræða tvö skip af Mistral gerð, sem geta borið 16 þyrlur, 13 skriðdreka, 450 hermenn og sjúkrahús.
Um er að ræða tvö skip af Mistral gerð, sem geta borið 16 þyrlur, 13 skriðdreka, 450 hermenn og sjúkrahús. Vísir/AFP
Frakkar munu ekki afhenda Rússum tvö herskip um óákveðinn tíma vegna deilunnar í Úkraínu. Francois Hollande, forseti Frakklands, tilkynnti þetta í dag. Hann sagði að ástandið í Úkraínu komi í veg fyrir afhendingu fyrra skipsins af tveimur.

Rússar hafa varað Frakka við alvarlegum afleiðingum, verði skipi‘ ekki afhent í lok nóvember. Aðstoðarvarnamálaráðherra Rússlands segir þó að Rússland muni vera þolinmótt og ætli ekki að leggja fram kæru fyrir alþjóðadómstólum. Með aðgerðum sínum er Frakkar að rjúfa samning sinn við Rússa.

Um er að ræða tvö skip af Mistral gerð, sem geta borið 16 þyrlur, 13 skriðdreka, 450 hermenn og sjúkrahús. Fyrra skipið átti að vera afhent fyrr í mánuðinum, samkvæmt upprunalega samkomulaginu sem undirritað var árið 2011.

AFP fréttaveitan segir Frakka hafa fundið fyrir gífurlegum þrýstingi frá bandamönnum sínum og þá sérstaklega Bandaríkjunum vegna málsins.

Yfirvöld í París eru í mikilli klípu og gætu þurft að borga miklar sektir, rjúfi þeir samning þjóðanna. Hins vegar mun Frakkland finna fyrir reiði bandamanna sinna, verði skipin afhent.

„Sama hver ákvörðun okkar verður, mun helmingur jarðarinnar vera reiður okkur,“ segir ónefndur embættismaður við AFP.

Ekki kemur til greina að selja skipin til annars lands en Rússlands, þar sem Rússar hafa þegar sett viðkvæman búnað um borð. Þeir munu ekki taka í mál að hann lendi í höndum annarra. yfirvöld í París vonuðu að vopnahléið í Úkraínu myndi hjálpa til við að skapa andrúmsloft þar sem mögulegt hefði verið að afhenda skipin.

Það hefur ekki gengið eftir og hefur ástandið í Úkraínu versnað undanfarið eftir að Rússar hafa verið sakaðir um að senda uppreisnarmönnum í Austur-Úkraínu birgðir og menn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×