Erlent

Seinheppnasti þjófur í heimi: Festist í strætóhurð og laminn grátandi með kylfu

Bjarki Ármannsson skrifar
Sitt sýnist væntanlega hverjum um hvort þjófurinn hafi átt útreiðina skilið.
Sitt sýnist væntanlega hverjum um hvort þjófurinn hafi átt útreiðina skilið. Mynd/Skjáskot úr myndbandi
Myndbandsupptaka úr öryggismyndavél strætisvagns í borginni Conception í Síle hefur farið líkt og eldur í sinu um netheima undanfarna daga. Myndbandið sýnir stórmerkilega atburðarás sem fer að stað þegar tveir ungir menn reyna að ræna handtösku eins farþega vagnsins.

Sá þeirra sem fær það verkefni að grípa töskuna og hlaupa út úr vagninum mun seint gleyma útreiðinni sem hann hlýtur í kjölfarið. Hinn 22 ára hnuplari gerir nefnilega ekki eina heldur tvær misheppnaðar tilraunir til að ná af konunni töskunni (í fyrra skiptið reynir hann að láta eins og um grín hafi verið að ræða) áður en hann ákveður að gefa hugmyndina upp á bátinn og stökkva út.

Þá fyrst byrja vandræðin því þjófurinn festir á sér höndina í dyrum vagnsins og getur enga björg sér veitt þegar vagnstjórinn byrjar að lemja hann ítrekað með hafnaboltakylfu. Ungi maðurinn, sem væntanlega hefur séð atburðarásina fyrir sér allt öðruvísi í huganum, situr fastur og fellir tár þar til vagnstjórinn kemur honum í hendur sílensku lögreglunnar. Myndbandið fylgir hér fyrir neðan, sjón er sögu ríkari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×