Innlent

Ségolène Royal fundaði með Gunnari Braga

Atli Ísleifsson skrifar
Ségolène Royal og Gunnar Bragi Sveinsson.
Ségolène Royal og Gunnar Bragi Sveinsson. Mynd/utanríkisráðuneytið
Ségolène Royal, ráðherra umhverfismála, sjálfbærrar þróunar og orkumála Frakklands, átti í dag fund með Gunnari Braga Sveinssyni utanríkisráðherra.

Royal er hér á landi í boði utanríkisráðherra og iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

Í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu segir að ráðherrarnir hafi átt fund í Hellisheiðarvirkjun þar sem frú Royal kynnti sér nýtingu jarðhita og hafi verið afar áhugasöm.

„Ráðherrarnir lögðu áherslu á að endurnýjanlegir orkugjafar gegndu lykilhlutverki við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í þágu í loftslagsmála.

Ráðherrarnir voru sammála um að miklir möguleikar væru fyrir hendi varðandi nýtingu jarðhita í heiminum og lýstu vilja til samstarfs milli íslenska og franska jarðhitaklasans. Mikilvægt væri að vekja athygli á nýtingu jarðhita á heimsvísu og lýstu ráðherrarnir í því samhengi ánægju sinni með það frumkvæði sem Ísland og Frakkland í samstarfi við IRENA, stofnun um endurnýjanlega orkugjafa, hefðu sýnt með stofnun samstöðuhóps stuðningsríkja jarðhitans – Global Geothermal Alliance sem kynnt verður formlega á ríkjaráðstefnu Loftslagssamnings SÞ í Frakklandi í desember n.k.

Utanríkisráðherra undirstrikaði að Ísland hefði metnað til að leggja sitt af mörkum á vettvangi loftslagsmála og hefði Ísland í því sambandi nýlega tilkynnt um markmið við gerð nýs loftslagssamnings SÞ, með ESB og Noregi um 40% minnkun losunar til 2030.“

Royal mun einnig funda með forseta Íslands, iðnaðar- og viðskiptaráðherra og umhverfisráðherra í heimsókn sinni til landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×