Innlent

Segjast landlausir eftir "kjánalega“ ályktun

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Benedikt Jóhannesson formaður Sjálfstæðra Evrópusinna segir ályktun landsfundar vera Sjálfstæðisflokknum til skammar.
Fréttablaðið/GVA
Benedikt Jóhannesson formaður Sjálfstæðra Evrópusinna segir ályktun landsfundar vera Sjálfstæðisflokknum til skammar. Fréttablaðið/GVA
„Maður heyrir á mörgum að þeim finnst þeir vera landlausir eftir þetta," segir Benedikt Jóhannesson, sem kveður Evrópusinna innan Sjálfstæðisflokksins afar ósátta við ályktanir landsfundar flokksins um að hætta eigi viðræðum um að aðild að Evrópusambandinu.

Benedikt gagnrýnir að í ályktun landsfundarinnar hafi fyrra orðalag um gera eigi hlé á aðildarviræðum verið breytt í að stöðva eigi viðræðurnar.

„Þarna er í raun málamiðlun og samkomulag sem er rofið. Auðvitað er þetta mjög bagalegt því að flestu öðru leyti eiga menn ágæta samleið," segir Benedikt, sem nefnir einnig það sem hann kallar „kjánalegan" kafla um íhlutun sendiherra Evrópusambandsins og að það eigi að loka upplýsingaskrifstofu Evrópusambandsins.

„Þetta er nú eiginlega bara fáheyrt að Sjálfstæðisflokkurinn sé kominn út í ritskoðun. Þetta er svona eins og smáflokkar samþykktu fyrir fjörutíu árum; Fylkingin eða kommúnistasamtökin samþykktu eitthvað svona um Menningarstofnun Bandaríkjanna. En að Sjálfstæðisflokkurinn, sem verið hefur stærsti flokkurinn, sé að samþykkja þetta um sendiráð vinaþjóða finnst mér flokknum til mikillar skammar," segir Benedikt.

Sjálfstæðir Evrópusinnar þar sem Benedikt gegnir formennsku munu funda síðdegis í dag. Hann segir að þangað muni mæta til viðræðna tveir frambjóðendur flokksins sem hlynntir séu því að ljúka aðildarviðræðunum; þeir Brynjar Níelsson og Vilhjálmur Bjarnason.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×