Innlent

Segja VLFA hafa undirgengist SALEK

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Eina kennarastéttin sem sveitarfélögin eiga eftir að semja við eru tónlistarkennarar. Myndin er frá mótmælum þeirra fyrir tæpum tveimur árum.
Eina kennarastéttin sem sveitarfélögin eiga eftir að semja við eru tónlistarkennarar. Myndin er frá mótmælum þeirra fyrir tæpum tveimur árum. Fréttablaðið/Valli
Aukaatriði er hvort SALEK rammasamkomulagið fylgdi nýgerðum kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og Verkalýðsfélags Akraness (VLFA) sem fylgiskjal. Þetta segir í yfirlýsingu sem sambandið sendi frá sér í gær sem viðbrögð við yfirlýsingum Vilhjálms Birgissonar, formanns VLFA, um samninginn, sem skrifað var undir í vikunni.

„Með undirritun SALEK rammasamkomulagins þann 27. október 2015 samþykkti Samband íslenskra sveitarfélaga þá launastefnu og þau markmið sem rammasamkomulagið felur í sér og hefur á síðustu mánuðum lokið gerð kjarasamninga við 43 stéttarfélög á grundvelli þeirrar launastefnu,“ segir í yfirlýsingunni.

Vilhjálmur Birgisson formaður VLFA
Nýgerður kjarasamningur við Verkalýðsfélag Akraness sé þar engin undantekning. „Með undirskrift kjarasamningsins hefur Vilhjálmur Birgisson því undirgengist launastefnu SALEK rammasamkomulagsins og þegið þær launahækkanir sem stefnunni fylgja.“

Á vef VLFA gagnrýnir Vilhjálmur yfirlýsingu Sambands sveitarfélaga harðlega og bendir á að orðalag sé annað í inngangi að nýgerðum samningi við sveitarfélögin en viðhaft sé á öðrum samningum. Í samningnum sé vísað til þessa einstaka samnings, meðan í öðrum samningum sé ákvæði um að aðilar séu „sammála um að vinna samkvæmt“ launastefnunni frá 27. október. 

Þá hafi ekki steytt á öðru í viðræðunum en umræddu orðalagi og fylgiskjali um SALEK.

Í janúarbyrjun áttu sveitarfélögin ósamið við 27 af 67 stéttarfélögum, en þeim hefur nú fækkað um þrjú þannig að 24 eru eftir. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×