Erlent

Segja vísbendingar um að fjársjóðslest nasista sé í raun til

Samúel Karl Ólason skrifar
Vitað er að nasistar byggðu fjölda ganga um svæðið í Póllandi.
Vitað er að nasistar byggðu fjölda ganga um svæðið í Póllandi. Vísir/EPA
Embættismenn í Póllandi segja vísbendingar um fjársjóðslest nasista, sem sögð er hafa horfið nærri Walbrzych í Póllandi, gefa sterklega til kynna að lestina sé í raun að finna á svæðinu. Yfirvöld í Póllandi hafa verið fengin til að rannsaka málið og aðstoðarráðherra menningarmála í Póllandi segist sannfærður um að lestin sé til.

Piotr Zuchowski vill að fjársjóðsleitarmenn haldi sig fjarri. Hann segir að gildrum gæti hafa verið komið fyrir í henni. Á vef Independent segir að hermenn hafi girt af stór svæði við bæinn.

Fyrr í þessum mánuði sögðust tveir menn hafa fundið lestina og fóru þeir fram á að fá tíu prósent verðmæti lestarinnar í fundarlaun. Samkvæmt sögum var talið að lestin hefði horfið á svæðinu þegar hermenn sovétríkjanna nálguðust svæðið árið 1945. Vitað er að nasistar byggðu fjölda ganga um svæðið.

Sjá einnig: Gulllest nasista í Póllandi fundin?

Talið var að farmur lestarinnar væru gull, gimsteinar og byssur. Hins vegar hafa sagnfræðingar aldrei staðfest tilvist lestarinnar og fjölmargir hafa áður leitað hennar.

Samkvæmt BBC segja sveitarstjórnarmenn í Walbrzych að ekki verið gefið upp hvar verið sé að leita að lestinni, né hverjir mennirnir eru sem sögðust hafa fundið hana.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×