Innlent

Segja veiðifélög fara með staðlausa stafi

svavar hávarðsson skrifar
Laxeldi mun aukast stórlega á næstu árum, gangi áætlanir eftir.
Laxeldi mun aukast stórlega á næstu árum, gangi áætlanir eftir. fréttablaðið/sigurjón
Landssamband fiskeldisstöðva (LF) hefur sent Sigurði Inga Jóhannssyni, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, bréf þar sem kröfu Landssambands veiðifélaga um að Eyjafirði og Ísafjarðardjúpi verði lokað fyrir sjókvíaeldi á norskættuðum laxi er harðlega mótmælt.

Kröfu sinni kom LV einmitt á framfæri bréflega til ráðherra fyrir helgi. LV vill meina að stjórnvöld séu bundin af niðurstöðu ráðherranefndar frá árinu 1988, en þar var sterklega varað við eldi á norskum laxi, og því í raun hafnað sem möguleika.

LF mótmælir málflutningi LV harðlega og vísar til þess að árið 2001 gekk í gildi endurskoðun á laxeldiskafla laga um lax- og silungsveiði. Í júní 2004 var reglugerð breytt í þá veru að eldi allra laxfiska yrði bannað í nágrenni laxveiðiánna.

Með þessu hafi niðurstöðu ráðherranefndarinnar frá 1988 verið hafnað, og krafa LV marklaus.

Nú er vinna og rannsóknir á mögulegum eldisáformum í Ísafjarðardjúpi og Eyjafirði og umhverfismati á þeim áætlunum í vinnslu hjá Skipulagsstofnun. LF krefst þess að ráðuneytið hafni málflutningi veiðiréttarhafa og aðhafist ekkert sem gæti truflað þau áform.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×