Erlent

Segja Tyrki vera komna að þolmörkum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Drengur í flóttamannabúðum sem komið hefur verið upp við landamæri Tyrklands og Sýrlands.
Drengur í flóttamannabúðum sem komið hefur verið upp við landamæri Tyrklands og Sýrlands. vísir/ap
Tyrknesk stjórnvöld segjast vera komin að þolmörkum en að Tyrkir muni þrátt fyrir það halda áfram að taka þá móti flóttamönnum sem flýja átökin í Sýrlandi. Tyrkir hafa verið undir miklum þrýstingi frá alþjóðasamfélaginu sem vill að landið taki við þeim tugþúsundum sem eru nú strandaglópar á landamærum ríkisins við Sýrland.

Á sama tíma skipuðu Sameinuðu arabísku furstadæmin sér í sveit með Sádí Arabíu þegar þau sögðust vera opin fyrir hugmyndinni um að hefja landhernað í Sýrlandi gegn vígamönnum Íslamska ríkisins. Sýrlensk stjórnvöld hafa þó tekið fálega í hugmyndina og segja hana samsvara stríðsyfirlýsingu við land og þjóð.

Tyrknesk stjórnvöld telja að 35 þúsund flóttamenn hafi verið við landamærin í dag sem voru lokuð þriðja daginn í röð. Héraðsstjóri landamærahéraðsins Kilis sagði í gær að Tyrkir myndu halda áfram að liðsinna flóttamönnum en þeir myndu einungis opna landamæri sín að nýju ef eitthvað stórvægilegt kæmi upp á.

Sýrlendingarnir eru á flótta undir hörðum bardögum í nágrenni stærstu borgar Sýrlands, Aleppo, en sýrlenski stjórnarherinn hóf fyrir skömmu mikla sókn gegn uppreisnarmönnum með stuðningi rússneskra flugsveita.

Varaforsætisráðherra Tyrklands sagði í samtali við CNN að Tyrkir hýstu nú um 3 milljónir flóttamanna, þar af 2.5 milljónir Sýrlendinga. „Tyrkland er komið að mörkum þess sem það getur tekið við flóttamönnum,“ sagði Numan Kurtulmus. „En þegar öllu er á botninn hvolft getur þetta fólk ekki leitað annað. Þau munu annars deyja í sprengjuregni og Tyrkland mun horfa upp á slátrunina eins og restin af heimsbyggðinni,“ bætti hann við.

Kurtulmus taldi að um 15 þúsund flóttamenn hefði verið hleypt inn í landið á síðustu dögunum og gerði ráð fyrir að verið væri að sinna um 30 þúsund öðrum flóttamönnum hinum megin við landamærin.

Á fimmtudaginn samþykktu 60 ríki heimsins að veita allt að 1.300 milljörðum í aðstoð vegna ástandsins í Sýrlandi og munu íslensk stjórnvöld leggja til um hálfan milljarð íslenskra króna.


Tengdar fréttir

Stefnir í umsátur um Aleppo

Sýrlenski stjórnarherinn sækir hratt að Aleppo og líklegt þykir að hundruðir þúsundir Sýrlendinga muni lokast inn í borginni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×